Lífið

Hausar í sókn á erlendri grundu

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Plötusnúðahópurinn Hausar spilar á stærstu drum & bass hátíð í heimi í ágúst.
Plötusnúðahópurinn Hausar spilar á stærstu drum & bass hátíð í heimi í ágúst. Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Plötusnúðahópurinn Hausar mun spila á Let It Roll tónlistarhátíðinni í Tékklandi í sumar. Um er að ræða drum & bass hátíð og er hún stærst sinnar tegundar í heiminum. Á hátíðinni í fyrra komu um 23.000 gestir saman yfir fjóra daga. Í sumar koma 300 listamenn fram á sjö sviðum sem sett eru upp á yfirgefnum herflugvelli í bænum Milovice í Tékklandi. Við töluðum við Bjarna Ben, einn meðlima Hausa, og Hildi Maríu Hjaltalín, umboðskonu teymisins.

„Þetta er hópur sem hafði mikinn áhuga á drum & bass tónlist og við tókum okkur til og stofnuðum hóp plötusnúða sem áttu það sameiginlegt að spila mest þessa tónlistarstefnu. Breakbeat.is þjónustaði mest senuna en svo varð breyting þar á og þá ákváðum við að slá til og stofnuðum Hausa. Við héldum fyrsta kvöldið í júlí 2012,“ segir Bjarni Bene­diktsson um stofnun Hausa.

Urðu að stækka við sig

Í hópnum ásamt Bjarna eru þeir Daniel Kristinn „Croax“ Gunnarsson, Ólafur „Untitled“ Jónsson, Björgvin Loftur „Nightshock“ Jónsson og Halldór Hrafn „Junglizt“ Jónsson.

„Við byrjuðum á að halda nokkur heimapartí og streymdum þeim síðan á netinu. En áhuginn var svo mikill að við urðum að stækka við okkur og þá byrjuðum við með þessi mánaðarlegu kvöld. Þau hafa verið á svolitlu flakki og haldin á Paloma og Faktorý svo dæmi sé tekið,“ segir Bjarni.

Umboðsmaður teymisins er Hildur María Hjaltalín, en hún segir drum & bass mjög vinsælt í Austur-Evrópu svo það passar vel að hátíðin sé haldin í Tékklandi.

„En það er líka mjög stórt í Austurríki, Sviss, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi. Ég held að hérlendis gerum við okkur ekki grein fyrir því hvað þetta er rosalega stór sena í öðrum löndum. Þótt drum & bass hafi verið til í langan tíma þá er það að sækja í sig veðrið núna og er að ganga í gegnum nýtt vinsældaskeið.“

Margir vilja spila á Íslandi

Hildur segist taka eftir því að bara síðasta hálfa árið hafi orðið mikil aukning í mætingu á fastakvöld Hausa, sem og aðra drum & bass viðburði. Einnig séu drum & bass lög að gera það gott á ýmsum vinsældalistum, sem hefur hingað til ekki verið algengt.

„Fyrir stuttu náði drum & bass lag á topp Beatport-listans en það hafði aldrei gerst áður, en það er þekkt raftónlistarvefgátt. En það er alveg einstaklega mikill uppgangur í drum & bass hérlendis. Sérstaklega síðasta hálfa árið, þá hef ég tekið eftir því að það er mikið af erlendum listamönum í senunni að hafa samband við okkur í von um spila á Íslandi eða eiga í samstarfi við Hausa.“



Let It Roll er stærsta drum & bass tónlistarhátíð í heiminum.

„Það er mikil stemning að vera þarna. Þetta er á gömlum yfirgefnum flugvelli og það eru „bunkerar“ úti um allt með partí fram á nótt. Svo eru náttúrulega þessi hefðbundnu svið eins og á öllum svipuðum hátíðum,“ segir Bjarni.

Á hátíðinni eru svokallaðar vinnustofur þar sem fólk hvaðanæva úr heiminum kemur saman og miðlar reynslu og þekkingu sín á milli varðandi flest sem kemur útgáfu og tónleikahaldi kringum drum & bass við.

„Við komum svo fram eitt kvöldið í ár, það er alveg ótrúlega frábært að okkur hafi verið boðið að spila á þessari hátíð. Mikið af langstærstu nöfnunum í senunni kemur fram á hátíðinni. Við mættum síðustu tvö ár og kynntumst þar fólki í kringum hátíðina en núna eru nokkur þeirra stödd hér á landi.“



Drum & bass sameinar ólíka hópa

Um helgina voru haldnir tónleikar á Húrra til að hita upp fyrir Let It Roll, en hátíðin fer fram 1. til 3. ágúst.

„Það gekk alveg gífurlega vel og tveir gestir á kvöldinu unnu svo miða á hátíðina og koma með okkur til Tékklands í sumar,“ segir Bjarni.

Hildur er sammála Bjarna um hvað það vel gekk á upphitunartónleikunum um helgina.

„Það var alveg stappað. Meira að segja hljóðmaðurinn kom til okkar sagði að þetta hefði verið alveg einstaklega gott kvöld. Hausar voru mjög hamingjusamir með kvöldið, þetta var frábært. Það spiluðu þrír erlendir listamenn og þeir hafa aldrei komið áður til landsins. Þeir eru líka í skýjunum með allt, æðisleg náttúra, vel tekið á móti þeim og fyrst og fremst sáttir við tónleikana um helgina.“

Hún segir viðburði oft vera eins­leita að en síðasta laugardag hafi verið áhugavert hve margir ólíkir hópar voru mættir á tónleikana.

„Já, það mætti eiginlega segja að þarna hafi drum & bass tekist að sameina ólíka hópa,“ segir Hildur að lokum hlæjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.