Í dag frumsýnir hann myndband við lokalag plötunnar, This and that. Myndbandið var unnið af leikhópnum Kriðpleiri, og flytja meðlimir hópsins í því þvottavél fyrir tónlistarmanninn Teit Magnússon.
„Þetta er kannski ákveðin klisja en það getur verið erfitt að hefjast handa á nýju ef maður bindur ekki slaufu á gamla pakkann,“ segir Árni og bætir við að rauði þráðurinn gegnum plötuna sé leit að sátt og tilraun til að forðast stöðnun. „Ég hef í rauninni alltaf verið þjakaður af ótta við að festast eða staðna.“
Titil plötunnar, Slightly Hungry, segir Árni vísa til kjörástands til þess að gera hluti. „Hvort sem það er að skapa, hreyfa sig, vinna eða bara hvað sem er. Það er óþægilegt að vera of svangur og jafnvel verra að vera of saddur.“ Hann minnir að abstraktmálarinn Agnes Martin eigi heiðurinn að þessari verkspeki.
Þó lög og textar plötunnar séu alfarið samin af Árna segir hann Þóri Andersen eiga mikinn hlut í henni, en hann sá um upptökustjórn á plötunni. „Hugmyndaflug hans og nálgun á tónlist gaf hverju lagi þann karakter sem það þarfnaðist.“

Aðspurður um tilurð þvottavélaflutningamyndbandsins segir Árni að Kriðpleir ásamt Hauki Valdimar Pálssyni hafi upphaflega gert myndbandið fyrir Teit Magnússon.
„Hann fann því ekki lag þannig ég ákvað að nota efnið. Enda passar það fullkomlega við þetta lag að mínu mati.“
Árni hefur farið nokkuð nýstárlegar leiðir í að vekja athygli á útgáfu plötunnar. Hægt væri að nefna tvær „herferðir“ í því samhengi, annars vegar „stock photo“ herferð og hins vegar umsagnir íslenskra rappara um plötuna.
Að ofan má sjá umsögn Birnis um plötuna og hér að neðan má sjá eina af „stock photo“ kynningarmyndunum.