Lífið

Elton John gefst upp á heimalandinu: „Ég er ekki heimskur, nýlendudrottnandi, heimsvaldasinnaður, breskur fáviti“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Óhætt er að segja að tónlistarmaðurinn sé dauðþreyttur á breskum stjórnmálum.
Óhætt er að segja að tónlistarmaðurinn sé dauðþreyttur á breskum stjórnmálum. Getty/Chris Jackson
Tónlistarmaðurinn Elton John, sem vissulega er frá Bretlandi, segist dauðskammast sín fyrir það hvernig bresk stjórnvöld hafa haldið á spöðunum allt frá upphafi Brexit-málsins. Hann segist nú titla sig sem Evrópubúa frekar en Breta.

Hann kom djúpstæðri óánægju sinni á framfæri á tónleikum sem hann hélt í ítölsku borginni Veróna á miðvikudagskvöldið síðasta.

„Ég skammast mín fyrir heimalandið mitt og það sem gengið hefur á. Þetta hefur sundrað fólki. Ég er kominn með dauðans ógeð af stjórnmálamönnum og sér í lagi þeim bresku. Ég er kominn með upp í kok af Brexit. Ég er Evrópubúi. Ég er ekki heimskur, nýlendudrottnandi, heimsvaldasinnaður, breskur fáviti.“

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Elton John úthúðar breskum stjórnmálamönnum. Síðasta sumar sagði hann að spunameistarar hefðu logið að breskum almenningi, alveg frá upphafi málsins.

„Þeim var lofað einhverju sem var með öllu fáránlegt og ekki í samræmi við efnahagslegan veruleika.“

Tónleikarnir í Veróna voru liður í síðasta tónleikaferðalagi Eltons John um heiminn. Tónlistarmaðurinn er með sjálfsævisögu í bígerð en hann stefnir að því að gefa út hið sjálfsævisögulega rit með haustinu.

Rocketman, kvikmynd sem er byggð á ævi söngvarans, er þegar komin í kvikmyndahús en hún fjallar um tímabilið þegar hann braust til frægðar og glímu hans við fíknina.


Tengdar fréttir

Frumsýning á Rocketman í London

Rocketman fjallar um líf og starf tónlistarmannsins Eltons John. Hún var frumsýnd með pompi og prakt í London fyrr í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.