Dietmar Hamann, fyrrum miðjumaður Liverpool, var handtekinn í Ástralíu síðasta föstudag og í kjölfarið ákærður fyrir að hafa ráðist á unnustu sína.
Lögreglan var kölluð að íbúð þeirra í Sydney aðfararnótt laugardags eftir að nágrannar höfðu tilkynnt um átök og ofbeldi í íbúðinni.
Hamann var handtekinn, leiddur út í járnum og kærður fyrir ofbeldi í garð unnustunnar. Hún var ekki slösuð eftir átökin en bað um lögregluvernd.
Hamann braut gegn verndinni með því að hafa samband við unnustuna og var í kjölfarið handtekinn í annað sinn. Mál hans var svo tekið fyrir í réttarsal í gær þar sem lögfræðingur hans lýsti því yfir að Hamann lýsti sig saklausan af ásökunum.
Málið verður tekið fyrir þann 12. desember næstkomandi. Hamann vinnur sem fótboltasérfræðingur fyrir RTE á Írlandi en vinnan hans þar er í uppnámi miðað við þessa stöðu.

