Í þættinum var rætt um helgunarrétt þeirra sem búa á jarðhæð eða í kjallara í fjölbýlum og rétt þeirra til að helga sér reit fyrir utan gluggann sinn til koma í veg fyrir ónæði sem þeir geta orðið fyrir. Gert er ráð fyrir slíkum reitum í nýrri byggingum en engar þinglýstar reglur liggja fyrir í eldri fjölbýlishúsum. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs hjá Reykjavíkurborg sagði að í eldri húsum þurfi að komast að samkomulagi innan húsfélagsins.
Formaður Húseigendafélagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson, sagði í þættinum að kafa þurfi dýpra í lög um fjöleignahús og horfa til laga og reglna um umburðarlyndi og tillitssemi í slíkum híbýlum. Hann segir grunntón laga um fjöleignarhús fela í sér að menn þurfi að fara eftir almennum mannasiðum. „Mönnum er skylt að haga hagnýtingu í fjöleignarhúsum þannig að aðrir verði ekki fyrir meiri ama og óþægindum en óhjákvæmilegt er,“ sagði Sigurður.
Sigurður benti hann á að Íslendingar virðast eiga erfiðara en aðrar þjóðir með að búa saman í friði „landnámsmaðurinn og frekjugenin eru ríkari í okkur," sagði Sigurður. Þá var bent á að hægt sé að leita til Húseigendafélagsins ef íbúar fjöleignarhúsa eru vafa um rétt sinn skyldur.
Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigurð Helga Guðjónsson í spilaranum hér að neðan.