Dómari á Spáni úrskurðaði í dag að nægilegar sannanir lægju fyrir því að söngvarinn Julio Iglesias væri líffræðilegur faðir 43 ára gamals karlmanns þrátt fyrir að Iglesias hefði neitað að fallast á erfðarannsókn.
Javier Sánchez kom í heiminn árið 1975, níu mánuðum eftir að móðir hans hitti söngvarann heimsþekkta í samkvæmi. Dómarinn í faðernismáli Sánchez gegn Iglesias taldi sannað að samskipti og samband hafi átt sér stað á milli Maríu Edite Santos, móður Sánchez, og söngvarans nærri getnaði hans.
Jafnframt taldi dómarinn það frekari sönnun að Iglesias, sem nú er 75 ára gamall, hafi neitað að taka þátt í DNA-rannsókn, að sögn AP-fréttastofunnar. Lögmenn Iglesias segjast ætla að áfrýja.
Haldi Sánchez velli eftir áfrýjun þarf hann að höfða annað mál vegna mögulegrar fjárkröfu sem hann gæti átt á hendur söngvaranum.
