Lífið

Skemmtu sér vel á LungA þótt rigndi alla helgina

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bagdad Brothers á sviðinu á laugardagskvöld.
Bagdad Brothers á sviðinu á laugardagskvöld. Mynd/Juliette Rowland

„Veðrið spilaði ekki með okkur en heilt yfir gekk vonum framar,“ sagði Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri listahátíðarinnar LungA, undir lok hátíðarinnar sem lauk á Seyðisfirði í gærkvöldi.



Rigning setti svip sinn á LungA að þessu sinni. „Það rigndi nánast allan tímann og það er grenjandi rigning enn þá,“ sagði Björt við Fréttablaðið. Það hafi þó alls ekki slegið á fjörið. „Ekki agnarögn.“



Að sögn Bjartar voru stórtónleikarnir á LungA á föstudags- og laugardagskvöld þeir fjölmennustu frá upphafi. Tvö til þrjú þúsund gestir hefðu verið á laugardagskvöldið.



Högni Egilsson batt endahnútinn á hátíðina með tónleikum í Seyðisfjarðarkirkju í gærkvöldi. „Það er mjög mikið af fólki farið en þetta verður vonandi lítið og nett og við vonum að bæjarbúar sjái sér fært að mæta,“ sagði Björt.



Vegna veðurs var eftirpartí fært frá tónleikasvæðinu utan við þorpið í íþróttahúsið og bað Björt bæjarbúa afsökunar á ónæðinu. „Slíkt veldur auðvitað auka hávaða en það sýndu allir því skilning,“ segir Björt . Seyðfirðingar taki virkan þátt í LungA. „Þetta væri ekki hægt án stuðnings bæjarbúa og bæjarfélagsins. Það er alveg á hreinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.