Keyptu Facebook-færslurnar koma frá síðu sem kallar sig „Síðasta vígið“. Hún virðist hafa verið stofnuð í gær. Á síðunni er hlekkjað á vefsíðu hópsins Norðurvígis sem virðist vera hópur íslenskra nasista. Þar kemur fram að hugsjónir hópsins séu meðal annars að „stuðla að brottför meirihluta fólks sem er ekki af Norður-Evrópskum [svo] uppruna eins fljótt og mögulegt er“. Kennir hópurinn sig við norræna mótstöðuhreyfingu.
Í stefnuskránni birtist einnig andúð á gyðingum sem eru sagðir „stjórna stórum hluta þessa heims“.
Á Facebook kemur fram að keyptu færslunum sé beint að fólki 42 ára og yngra sem býr eða hefur verið nýlega á Íslandi. Í einni þeirra sést mynd af andliti Adolfs Hitler, leiðtoga þriðja ríkis nasista í Þýskalandi, voma yfir Reykjavík.
„Hvert þykistu vera að fara hvíti maður? Viltu fjölmenningu eða norrænt þjóðríki,“ segir í texta á myndinni.
Engar upplýsingar er að finna á vefsíðu Norðurvígis eða á Facebook-síðunni Síðasta vígið hver stendur að hópunum eða hver fjármagnar keyptar færslur á samfélagsmiðlum. Fyrirspurn sem Vísir sendi í gegnum vefsíðu Norðurvígis var ekki svarað strax.
