Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að það sem af er ári er vöxtur í útflutningsverðmæti fiskeldis milli ára um 60 prósent. Verðmæti verður líklega hátt í 20 milljarðar króna í ár sem nemi ríflega eitt prósent af heildarútflutningi.
Framleiðsluheimildir í fiskeldi hafa nær tvöfaldast á þessu ári og eru nú um 85 þúsund tonn á ári miðað við útgefin starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Er áætlað að það taki rekstraraðila um tvö ár að komast í fulla framleiðslugetu.
„Gangi áform eftir eru líkur á að samanlögð framleiðsla tvöfaldist til ársins 2021. Miðað við óbreytt afurðaverð þýðir þetta að útflutningsverðmæti fiskeldis gæti orðið um 40 ma.kr. árið 2021. Það nemur hátt í 3% af heildarútflutningi og slagar upp í verðmæti alls uppsjávarfisks í fyrra. Spáin er vitanlega háð óvissu um gang mála hjá einstökum framleiðendum.

Mestallt fiskeldi hér á landi er annars vegar á Vestfjörðum og hins vegar á Austfjörðum. Skiptist það tiltölulega jafnt milli þessara tveggja landsvæða.