Seðlabanki Íslands var í Héraðsdómi Reykjaness í morgun dæmdur til að afhenda Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, upplýsingar um starfslokasamning sem Már Guðmundsson, þáverandi Seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Fréttablaðið greinir frá.
Seðlabankinn stefndi Ara til að fá úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá því í júlí síðastliðnum felldan úr gildi. Nefndin taldi Seðlabankanum skylt að veita Ara upplýsingar um námsstyrk sem Ingibjörg fékk þegar Már gerði við hana starfslokasamning.
Fréttablaðið hefur eftir heimildum sínum að Ingibjörg hafi fengið greitt á annan tug milljóna króna við starfslokin, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Seðlabankinn hefur enn ekki afhent upplýsingar um samninginn en réttaráhrifum úrskurðarins var frestað meðan málið var rekið.
Ekki hefur náðst í Einar Þór Sverrisson lögmann Ara eða Arnar Þór Stefánsson lögmann Seðlabankans vegna málsins í morgun.
Seðlabankinn dæmdur til að láta blaðamanninn hafa upplýsingarnar

Tengdar fréttir

Hefur viku til að stefna blaðamanni
Fréttablaðið fær ekki umbeðnar upplýsingar um námssamning starfsmanns Seðlabankans að svo stöddu. Réttaráhrifum úrskurðar um skyldu bankans til að afhenda blaðamanni gögn hefur verið frestað. Seðlabankinn fékk sjö daga frest til að vísa málinu til dómstóla.

Bankinn höfðar mál gegn blaðamanni
Seðlabanki Íslands hefur lagt fyrir Héraðsdóm Reykjaness beiðni um flýtimeðferð máls sem hann hyggst höfða gegn blaðamanni Fréttablaðsins.

Spurði hvort sami leyndarhjúpur ríkti ef Ingibjörg hefði fengið gullstöng eða bíl
Lögmenn í máli Seðlabanka Íslands gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins, tókust á um upplýsingalög og framgöngu Seðlabankans gagnvart „varðhundi almennings“, blaðamanninum, í Héraðsdómi Reykjaness dag.