Dómur verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í dag í máli Seðlabanka Íslands gegn Ara Brynjólfssyni, blaðamanni Fréttablaðsins.
Seðlabankinn stefndi til að fá úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál hnekkt en nefndin taldi bankanum skylt að veita upplýsingar um samning sem Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fékk Ingibjörg greiddar á annan tug milljóna króna við starfslok sín hjá bankanum, bæði með launagreiðslum án kröfu um vinnuframlag og námsstyrk við Harvard-háskóla.
Seðlabankinn hefur enn ekki afhent upplýsingar um samninginn en réttaráhrifum úrskurðarins var frestað meðan málið er rekið.
