Sýnt verður beint frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem hefjast klukkan 19:30 í Hörpu. Spiluð verða verk eftir Brahms og Tsjajkovskí, en hægt að fylgjast með tónleikunum í spilaranum að neðan.
Á efnisskrá tónleikana eru tvö verk. Annars vegar Píanókonsert nr. 2 eftir Brahms sem talið er eitt hans stærsta og kröfuharðasta verk.
„Einleikari í konsertinum er Stephen Hough en eftir síðustu tónleika hans á Íslandi sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins að hann væri „einstakur píanóleikari með magnaðan áslátt, gríðarlega öflugan en líka unaðslega mjúkan“,“ segir í tilkynningu frá Sinfóníuhljómsveitinni.
Á tónleikunum leikur hljómsveitin einnig sjöttu sinfóníu Tsjajkovskí sem var síðasta verk rússneska tónskáldsins.
„Hljómsveitarstjóri er hin suður-kóreska Han-Na Chang sem var nemandi Rostropovitsj og lék einleik með mörgum helstu hljómsveitum heims þar til hún snéri sér að hljómsveitarstjórnun.“
Hægt er að fylgjast með tónleikunum að neðan.