Cristiano Ronaldo, stórstjarna Juventus, segir að hann vilji gjarnan mæta sínum gömlu félögum í Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þetta tímabilið.
Portúgalinn hjálpaði spænska risanum að vinna fjóra Evrópumeistaratitla áður en hann ákvað að söðla um og færa sig yfir til Ítalíu fyrir einu og háfi ári síðan.
Juventus og Real Madrid gætu dregist gegn hvor öðru er dregið verður í 16-liða úrslitin á mánudaginn.
„Real Madrid er sérstakt lið en ég vil frekar spila við þá síðar í keppninni,“ sagði Ronaldo er hann ræddi við Sky Sports Italia.
Cristiano Ronaldo takes aim at Real Madrid with Champions League jibe https://t.co/BemUaJMnUfpic.twitter.com/Q01RwyDxtU
— Mirror Football (@MirrorFootball) December 13, 2019
„Í úrslitaleiknum? Ég myndi skrifa undir það núna að mæta þeim í úrslitaleiknum.“
Ronaldo hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli það sem af er leiktíðinni en hann segist vera finna sitt rétta form.
„Mér líður vel. Ég er kominn yfir meiðslin. Ég spilaði í fjórar vikur með smá verki en núna er ég fínn. Liðið er að spila vel og við spiluðum vel í síðari hálfleiknum gegn Leverkusen,“ en Ronaldo skoraði fyrra markið í 2-0 sigri.
Juventus er tveimur stigum á eftir Inter í ítölsku deildinni en Juve spilar við Udinese um helgina. Leikurinn í beinni á Sportinu klukkan 14.00 á sunnudag.