Mótmæli héldu áfram í Belgrad, höfuðborg Serbíu, í gær og í nótt. Mótmælin hafa verið nokkuð ofbeldisfull og hafa eldar verið kveiktir og brotist hefur verið inn í þinghúsið. Þúsundir tóku þátt í mótmælunum í gær en mótmælendur gagnrýna sérstaklega Aleksandar Vucic, forseta Serbíu og stefnu ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega því hvernig brugðist hefur verið við kórónuveirufaraldrinum.
Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni og voru lögreglumenn klæddir í óeirðarhlífðarfatnað og voru margir þeirra á lögregluhestum í kring um þinghúsið til að koma í veg fyrir að andstæðingar forsetans kæmust inn í þingbygginguna. Mótmælendur sem köstuðu steinum að lögreglu kyrjuðu „Við munum ekki sleppa tökunum af Kósovó,“ og „Vucic er þjófur.“
Mótmælin sem hófust fyrr í vikunni voru fyrst mótmæli vegna viðbragða yfirvalda við faraldrinum og slæmu efnahagsástandi en þau hafa þróast yfir í að vera mótmæli gegn forsetanum og ríkisstjórn landsins.
Kósovó lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Serbíu í febrúar árið 2008 en þá hafði landið aðeins verið hluti af Serbíu að nafninu til síðan í Kósovóstríðinu 1999 en eftir það tóku Sameinuðu þjóðirnar við stjórn þess. Serbar eru mjög óánægðir með sjálfstæðisyfirlýsinguna.
Viðræður fara nú fram milli yfirvalda Serbíu og yfirvalda í Pristína, höfuðborg Kósovó, en það voru Þýskaland og Frakkland sem hvöttu til að viðræður yrðu teknar upp að nýju. Að sögn Vucic ganga viðræðurnar vel.