Ragnar Sigurðsson fór meiddur af velli í leik gegn Midtjylland snemma í þessum mánuði.VÍSIR/GETTY
FC Köbenhavn ætlar ekki að vera án Ragnars Sigurðssonar þegar liðið mætir Tyrklandsmeisturum Istanbul Basaksehir í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta.
Ragnar kom frítt til FCK í janúar eftir að hafa hætt hjá Rostov í Rússlandi, og gerði fyrst samning sem átti að gilda til 30. júní en hefur nú samþykkt að vera hjá liðinu út ágúst.
Ragnar verður því í herbúðum FCK fram að næstu landsleikjum en Ísland mætir Englandi á Laugardalsvelli 5. september og Belgíu ytra þremur dögum síðar, í Þjóðadeildinni.
Þar sem að tímabilið í Danmörku lengdist vegna kórónuveirufaraldursins var upphaflegur samningur Ragnars fyrst framlengdur til loka júlí, og samkvæmt Copenhagen Sundays hefur samningurinn nú enn verið framlengdur, út ágúst. Það er vegna þátttöku FCK í Evrópudeildinni.
FCK mætir Istanbul Basaksehir á Parken 5. ágúst, eftir að hafa tapað útileiknum 1-0 í mars. Sigurliðið í einvíginu mætir væntanlega stórliði Manchester United í 8-liða úrslitum í Þýskalandi 10. ágúst, en í 8-liða úrslitum, undanúrslitum og úrslitum keppninnar verða leiknir stakir leikir og fara þeir allir fram í Þýskalandi.
United er 5-0 yfir í einvígi sínu við LASK frá Austurríki í 16-liða úrslitum en liðin mætast á Old Trafford í seinni leik sínum 5. ágúst.