Lögreglumenn á Íslandi eru á þriðja hundrað færri en ásættanlegt getur talist að mati greiningardeildar ríkislögreglustóra. Aukin harka, ofbeldi og erfiðari útköll einkenna störf þeirra í dag. Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað á fimmta tug frá árinu 2008.
Í dag starfa samanlagt 613 menntaðir lögreglumenn í fullu starfi á Íslandi. Umtalsvert færri en til að mynda árið 2004 þegar þeir voru 669, samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi Lögreglumanna. Samt sem áður hefur íbúum fjölgað um tugþúsundir og ferðamannastraumurinn hefur aldrei verið meiri.

„Vinnan er orðin hættulegri“
„Álagið er meira, bæði út af hættulegri útköllum, vinnan er orðin hættulegri. Okkur hefur fækkað og íbúum fjölgað,“ segir Júlíana Bjarnadóttir, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Í bráðabirðgðatölum ríkislögreglustjóra um afbrot á Íslandi á síðasta ári kemur fram að hegningarlagabrotum og sérrefsilagabrotum fjölgi á milli ára. Af hegningarlagabrotum fjölgaði kynferðisbrotum hlutfallslega mest og í sérrefsilögum, eins og neyslu og vörslu fíkniefna, fjölgaði einnig. Fram kemur þó að umferðarlagabrotum hafi fækkað. Sú fækkun getur verið í samræmi við að lögreglumenn geti í fáum tilfellum sinnt frumkvæðisverkefnum.
„Við erum kannski meira í því að sinna því sem þarf að sinna og það sem við vorum að sinna meira áður eins og eftirliti, það situr meira á hakanum í kjölfarið,“ segir Júlíana.

Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu fækkað á fimmta tug frá árinu 2008
Lögreglumenn sem fréttastofa hefur rætt við eru sammála um að aukin harka og ofbeldi einkenni þau útköll sem þeir sinna og er tíðrætt um hversu mikil skiplögð glæpastarfsemi er orðin á Íslandi. Í skýrslu greiningardeildarinnar kemur fram að vart verði með fullnægjandi hætti tekist á við þann vanda að óbreyttu skipulagi og mannafla.
„Hjá þessu embætti hefur lögreglumönnum fækkað eitthvað á milli fjörutíu og fimmtíu frá árinu 2008. Á sama tíma hefur verkefnum fjölgað gífurlega, í tugum prósenta,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þá kemur fram í skýrslu tölum ríkislögreglustjóra að haldlagt magn af fíkniefnum var töluvert meira árið 2019 en árið á undan, þrátt fyrir að málin hafi verið færri. Magn amfetamíns hefur ekki verið meira frá árinu 2009. Þá hefur aldrei verið lagt hald á jafn mikið af kókaíni og á síðasta ári.
„Það er komin aukin krafa um betri og nákvæmari rannsóknir. Það má segja það að álagið hafi aukist til muna,“ segir Ásgeir Þór.

Þá kemur fram í skýrslu tölum ríkislögreglustjóra að haldlagt magn af fíkniefnum var töluvert meira árið 2019 en árið á undan, þrátt fyrir að málin hafi verið færri. Magn amfetamíns hefur ekki verið meira frá árinu 2009. Þá hefur aldrei verið lagt hald á jafn mikið af kókaíni og á síðasta ári.
„Það er komin aukin krafa um betri og nákvæmari rannsóknir. Það má segja það að álagið hafi aukist til muna,“ segir Ásgeir Þór.
Í Kompás á Vísi í fyrramálið verður ítarlega farið yfir starfsaðstæður og stöðuna í löggæslumálum á Íslandi og birt sláandi myndband frá aðgerðum lögreglumanna þar sem ölvuðum ökumanni er veitt eftirför.