Umboðsmaður Alþingis skoðar nú mál Heklu Lindar Jónsdóttur, sem lést eftir að lögregla hafði afskipti af henni í apríl í fyrra. Móðir Heklu Lindar er þakklát viðbrögðunum.
Hekla Lind var aðeins 25 ára gömul þegar hún lést eftir að lögregla handtók hana í bakgarði í miðbæ Reykjavíkur í apríl síðastliðnum. Hún var undir áhrifum vímuefna og í slæmu geðrofsástandi. Hringt hafði verið eftir sjúkrabíl en lögregla var send á staðinn.
Fjallað var ítarlega um málið í fréttaskýringaþættinum Kompás um miðjan janúar. Foreldrar Heklu Lindar gagnrýndu handtökuaðferðir lögreglu og ákvörðun Héraðssaksóknara og Ríkissaksóknara um að fella málið niður. Það var gert þar sem talið var að viðurkenndum handtökuaðferðum hefði verið beitt og að málið væri ekki líklegt til sakfellis. Réttarmeinafræðingur segir þó í áliti sínu að aðgerðir lögreglu hafi átt umtalsverðan þátt í dauða hennar.
Í kjölfar umfjöllunar um málið sendi Geðhjálp frá sér ályktun þar sem farið var fram á óháða úttekt á verkferlum í málum þegar afskipti er höfð af manneskju í geðrofi. Þá er málið til umfjöllunar hjá Velferðarnefnd Alþingis.
Guðrún Haraldsdóttir, móðir Heklu Lindar, segist vera þakklát fyrir þau góðu viðbrögð sem foreldrarnir fengu eftir að hafa stigið fram. „Því viðbrögðin hafa verið svo jákvæð og í raun svo mikil hvatning fyrir okkur. Við erum svo þakklát að Hekla skuli fá rödd fyrir þennan stóra hóp í samfélaginu. Það er auðvitað sorglegt að svona þurfi að koma til svo að þetta fari í umræðu en í raun erum við rosalega þakklát og viðbrögðin hafa bara verið rosa mikil,“ segir Guðrún Haraldsdóttir, móðir Heklu Lindar.
Mál Heklu Lindar er nú komið á borð Umboðsmanns Alþingis.
„Ég hafði samband og fór fram á hvort mögulegt væri að þeir gætu opnað málið og skoðað það betur þar sem við erum langt frá því að vera sátt við þessa verkferla og svo var bara hringt strax í kjölfarið og ég var beðin um að koma með öll gögn sem ég fór í af afla og skilaði af mér á fimmtudaginn,“ segir Guðrún.