Menning

Minnast Gísla Rúnars með hlýhug: „Stórveldi í lífinu og listinni“

Sylvía Hall skrifar
Gísli Rúnar Jónsson.
Gísli Rúnar Jónsson.

Útför Gísla Rúnars Jónssonar fer fram í dag klukkan 15. Gísli Rúnar var þjóðþekktur leikari, leikstjóri, handritshöfundur og þúsundþjalasmiður en hann lést á heimili sínu þann 28. júlí síðastliðinn 67 ára að aldri.

Gísli Rúnar var landsmönnum vel kunnugur en hann var tíður gestur á sjónvarpsskjánum. Hann lék til að mynda í kvikmyndinni Stella í orlofi, skrifaði og leikstýrði Heilsubælinu og þáttunum Fastir liðir eins og venjulega. Þá sló hann í gegn í Kaffibrúsakörlunum ásamt Júlíusi Brjánssyni.

Ættingjar og vinir minnast Gísla Rúnars í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag þar sem honum er lýst sem ástríkum manni og hróki alls fagnaðar. Ævintýramaður með fullkomnunaráráttu sem var óhræddur við að feta ótroðnar slóðir í listinni.

Aðeins nánustu ættingjar verða viðstaddir útförina en henni verður streymt á gislirunar.is.

Edda Björgvinsdóttir segir Gísla Rúnar hafa verið þjóðargersemi.Vísir/Getty

„Þjóðargersemi“ 

Edda Björgvinsdóttir, leikkona og fyrrverandi eiginkona Gísla Rúnars, lýsir honum sem „stórveldi í lífinu og listinni“. Himnarnir hafi grátið stanslaust í sextán daga eftir andlát hans en nú kveðji þjóðin einstakan mann.

„Ég rígheld í þá hugsun að þú sért núna á bleiku skýi í alsælu og lítir til með okkur um ókomin ár. Hvíl í friði, elsku Gísli þjóðargersemi,“ skrifar Edda.

Eva Dögg, dóttir Gísla Rúnars, segir það sannarlega hafa litað líf sitt að eiga hann sem föður. Margir hafi spurt hana hvort það væri ekki stanslaust gaman á heimilinu og það hafi verið svo. Fyrst og fremst hafi þau systkinin fengið kærleika, ást og stuðning í einu og öllu.

„Það voru reglur og við látin taka til, borða hollt, fara snemma að sofa og allt það, en við vorum ekki vakin upp með skets úr áramótaskaupi og pabbi og mamma voru ekki með hárkollur og gervigóma yfir kvöldmatnum,“ skrifar Eva Dögg. Pabbi hennar hafi oft unnið svo vikum skipti en þegar hann kom aftur heim hafi hann gert lífið „svo dásamlega skemmtilegt“.

Hún segir föður sinn hafa náð að lifa með þeim sjúkdómi sem hrjáði hann í nokkur ár en undanfarin tvö ár hafi eitthvað breyst. Hún hafi þó fengið fallega kveðjustund og sé þakklát fyrir að hafa fengið að fylgja honum í lífinu.

Bjarni Ákason var góðvinur Gísla Rúnars.Vísir/Vilhelm

„Sprenghlægileg alfræðiorðabók“ 

Bjarni Ákason framkvæmdastjóri lýsir Gísla Rúnari sem dugnaðarforki. Hann hafi tekið margt að sér en öllu sinnti hann upp á tíu. „Ef þú baðst hann um eina hugmynd þá kom hann með 3 eða jafnvel 10,“ skrifar Bjarni.

Hann segir Gísla Rúnar hafa verið með svipaða fullkomnunaráráttu og Steve Jobs; allt sem hann tók að sér varð að fullkomnu verki þrátt fyrir erfiðleika í ferlinu. Þá lýsir hann erfiðum samskiptum við leikhúsið og þurfti Bjarni oft að aðstoða Gísla í samskiptum við það.

„Ekki var leikhúsið alltaf gott við hann og man ég sérstaklega þegar ég þurfti ganga erinda fyrir hann vegna brota á höfundarrétti og sendi hann mig til að ræða við leikhússtjóra og leikstjórann sjálfan. Leikhússtjóri gat svo ekki mætt á síðustu stundu en leikstjórinn mætti og talaði Gísla niður og þetta var opinber stofnun, Gísli gaf eftir. Á endanum fékk Gísli ekki neitt en leikhúsið sitt, þetta var svolítið saga Gísla og leikhússins í hnotskurn.“

Hann segir ómögulegt að finna jafn fróðan og skemmtilegan mann og Gísla. Hann hafi verið „gangandi sprenghlægileg alfræðiorðabók“.

Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri.Þjóðleikhúsið/Hari

Íslenskt samfélag eigi Gísla Rúnari mikið að þakka 

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir snilligáfu Gísla Rúnars hafa endurspeglast í þeim verkum sem hann tók þátt í á lífsleiðinni. Styrkleikar hans hafi meðal annars falist í nákvæmni og „myljandi húmor“.

Magnús Geir og Gísli Rúnar kynntust þegar Magnús tók að sér sitt fyrsta leikstjórnarverkefni. Hann segir mikla vináttu hafa skapast þeirra á milli og Gísli hafi reynst honum vel með hvatningu sinni og hlýju. Hann hafi lagt allt sitt í verkefnin sem hann tók að sér.

„Stuttir vinnufundir vildu dragast á langinn, stóðu oft klukkustundum saman, hlaðnir ógleymanlegum augnablikum þegar Gísli las, söng og lék nýjar þýðingar. Hann kom með ótal tillögur og tilboð, hugmyndirnar voru óþrjótandi, enda var hann á þessum tímapunkti búinn að liggja dag og nótt yfir verkinu,“ skrifar Magnús Geir.

Kolbrún Halldórsdóttir hefur svipaða sögu að segja og segir Gísla hafa verið mikinn grúskara þegar kom að hvers kyns list: „Það var sko ekki neitt káf í yfirborðinu, ó nei, það þurfti að kryfja til mergjar, fara á dýptina, lýsa út í hvert horn, kanna alla rangala og finna allar sögurnar, því það voru sögur við hvert fótmál, í tali, tónum og myndum,“ skrifar Kolbrún.

Hún segir ástvini hans ylja sér við hlýjar minningar eftir andlát hans og í bakgrunni heyri þau óminn af Smile eftir Charlie Chaplin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.