Allir sem hlaupa til góðs í góðgerðarhlaupi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka fá afhentar rafrænar medalíur að hlaupi loknu. Margir ætla að hlaupa um helgina þó að Reykjavíkurmaraþoninu sjálfu hafi verið frestað. Medalíurnar eru í formi „filters“ á samfélagsmiðlum.
Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá Steinda, maraþonmanninn 2020, prófa rafræna verðlaunapeninginn.
„Eins og kunnugt er búið að aflýsa Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár vegna Covid19. Fólk er engu að síður hvatt til að reima á sig hlaupaskóna og hlaupa sína leið til styrktar góðu málefni. Það kostar ekkert að vera með og getur hver hlaupari valið sína vegalengd og sitt góðgerðarfélag til að safna fyrir. Skráning og áheitasöfnunin fer fram áhlaupastyrkur.is. Að hlaupi loknu geta hlauparar náð sér í rafrænan verðlaunapening sem þeir geta skreytt sig með á Facebook eða Instagram en peningurinn er unninn af auglýsingastofunni H:N Markaðssamskiptum,“ segir í tilkynningunni.
„Það er ótrúlegur fjöldi fólks sem er bæði búið að hlaupa og ætlar að hlaupa til góðs þessa daga sem góðgerðarhlaupið stendur yfir,“ segir Katrín Petersen, verkefnastjóri hjá Íslandsbanka, en um 48 milljónir króna hafa nú þegar safnast. „Við höfum þurft að aðlaga margt hjá okkur að breyttum raunveruleika og þar sem við getum ekki afhent hefðbundna verðlaunapeninga eins og venja er, brugðum við á það ráð að bjóða upp á rafræna verðlaunapeninga þetta árið.“
Rafrænu verðlaunapeningana er hægt að sækja hér fyrir Facebook og hér fyrir Instagram
„Verðlaunapeningurinn hefur verið í gegnum árin safngripur hlaupara sem fara heilmaraþon og hálft maraþon. Í ár ætlum við því að bjóða hlaupurum sem geta sýnt fram á að þeir hafi hlaupið þær vegalengdir að hafa samband við okkur áskraning@marathon.isog komum við til þeirra verðlaunapening fyrir árið 2020. Áheitasöfnunin stendur til 25. ágúst 2020. Allir eru hvattir til að taka þátt og kostar ekkert að taka þátt í hlaupinu.“
Tæplega 50 milljónum hefur verið safnað í gegnum síðuna Hlaupastyrkur þegar þetta er skrifað.