Lyon og PSG eru komin áfram í undanúrslit Meistaradeildar kvenna í Evrópu.
Lyon sigraði Bayern Munchen 2-1. Nikita Parris kom Lyon í 1-0 á 41. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Íslenska landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn á völlinn fyrir Lyon í hálfleik. Á 59. mínútu kom Amel Majri Lyon í 2-0 en Carolin Simon minnkaði muninn fyrir Bayern fimm mínútum síðar. Bayern náði ekki lengra og Sara Björk og stöllur hennar komnar í undanúrslit.
Lyon mun mæta PSG sem vann Arsenal 2-1 í dag. Þetta verður því viðureign tveggja bestu liða Frakklands og fer hún fram næsta miðvikudag 26. ágúst og verður auðvitað í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.