Kanada og Bretland eru þau ríki af G-7 ríkjunum svokölluðu þar sem viðhorf til kvenna og karla í leiðtogahlutverkum mælist hvað jafnast samkvæmt nýjum niðurstöðum Reykjavik Index for leadership. Viðhorfsmunurinn mælist hins vegar mestur á Indlandi, í Kenía og í Nígeríu.
Nýjar vísitölur Reykjavik Index for leadership voru kynntar á Heimsþingi kvenleiðtoga sem lauk í dag. Þetta er þriðja árið í röð sem vísitalan er kynnt en að þessu sinni fór heimsþingið alfarið fram rafrænt í ljósi kórónuveirufaraldursins en henni var þó stýrt frá Hörpu í Reykjavík.
„Vísitalan er unnin í samstarfi við alþjóða rannsóknarfyrirtækið Kantar og metur hún viðhorf einstaklinga til leiðtogahlutverka karla og kvenna í mismunandi starfsgreinum. Vísitalan er birt á kvarðanum upp í 100 sem endurspeglar að allt samfélagið telur að konur og karlar séu jafn hæf til að sinna leiðtogahlutverki á ólíkum sviðum í samfélaginu. Niðurstöðurnar benda til þess að í ár er viðhorf til kvenna í ólíkum starfsgreinum að dala,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar.
Kanada og Bretland eru með vísitöluna 81 en á Indlandi er vísitalan 68, 53 í Kenía og 47 í Nígeríu. Samkvæmt rannsókninni eiga konur mestan möguleika á að hasla sér völl á sviði vísinda, fjölmiðla og fjármála.
Þá var heimskortið Women‘s World Atlas einnig kynnt en kortinu er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eftir starfsgreinum en einungis 2% forstjóra í heiminum eru konur.
Á heimsþinginu í ár var sérstök áhersla á áhrif heimsfaraldursins á konur. „ljóst er að faraldurinn hefur meiri áhrif á konur og hefur meðal annars kynbundið ofbeldi aukist um 30-40% á heimsvísu. Atvinnuöryggi kvenna er takmarkaðra en karla og hefur faraldurinn því meiri áhrif á tekjur þeirra. Ennfremur verja konur á heimsvísu þrefalt meiri tíma í ólaunuð ummönnunarstörf en karlmenn,“ segir í tilkynningunni.
Vigdís Finnbogadóttir heiðruð
Á heimsþinginu fengu sex kvenleiðtogar brautryðjendaverðlaun, Trail Blazer‘s Award. Í ár féllu verðlaunin í skaut Mary Robinsson, fyrrverandi forseti Írlands, Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Joyce Banda fyrrverandi forseta Malawi, Laura Chinchilla Mirand, fyrrverandi forsætisráðherra Costa Rica, Michèle Pierre-Louis, fyrrverandi forsætisráðherra Haiti og Saara Kuugongelwa-Amadhila, forsætisráðherra Namibíu.
Þá var frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og verndari Heimsþings kvenleiðtoga, heiðruð sérstaklega fyrir störf sín í þágu kvenna með brjóstakrabbamein en „Power Together“-verðlaunin í ár voru tileinkuð alþjóðlegu hreyfingunni The Pink Ribbon.