Þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur og bara búinn að spila tólf leiki í Meistaradeild Evrópu er Erling Håland kominn með fleiri mörk í keppninni en nokkrir af bestu fótboltamönnum allra tíma.
Håland skoraði tvívegis í 3-0 sigri Borussia Dortmund á Club Brugge í Meistaradeildinni í gær. Hann er markahæstur í keppninni á þessu tímabili með sex mörk.
Norðmaðurinn hefur alls skorað sextán Meistaradeildarmörk, fleiri en leikmenn á borð við Ronaldo hinn brasilíska og Zinedine Zidane. Þeir skoruðu báðir fjórtán Meistaradeildarmörk á sínum tíma.
Meðal annarra þekktra kappa sem hafa skorað minna en Håland í Meistaradeildinni þrátt fyrir að leika miklu fleiri leiki má nefna Miroslav Klose, Michael Owen, Carlos Tévez, Christian Vieri og David Villa.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi eru langmarkahæstir í sögu Meistaradeildarinnar með 131 og 118 mörk. Håland hefur samt byrjað betur í keppninni en þeir báðir.
Håland skoraði fernu í 2-5 sigri Dortmund á Herthu Berlin um helgina. Hann er næstmarkahæstur í þýsku úrvalsdeildinni með tíu mörk, einu marki minna en Robert Lewandowski hjá Bayern München.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.