Boca Juniors og Newell‘s Old Boys, lið sem að Maradona lék með á sínum tíma, mættust í gær og unnu Boca 2-0 sigur.
Eftir fyrra markið fóru allir leikmenn Boca að heiðursstúku Maradonas á La Bombonera leikvanginum, þar sem Dalma dóttir hans sat, lögðu treyju Diegos á jörðina og klöppuðu til Dölmu.
The raw emotion of Dalma Maradona, Diego s daughter, upon receiving an ovation from Boca Juniors after scoring the game s opening goal.
— Nico Cantor (@Nicocantor1) November 29, 2020
pic.twitter.com/i7ScvTQcAh
Leikmenn beggja liða báru nafn Maradonas aftan á treyjum sínum, og á treyju dómarans stóð „Takk Diego“. Liðin mættust í hinum nýja argentínska deildabikar, sem kemur í stað argentínsku deildarinnar á þessari leiktíð, en keppnin hefur nú verið nefnd Diego Armando Maradona bikarinn til heiðurs goðinu sem lést í síðustu viku.

Maradona var heiðraður á fótboltaleikjum víða um heim um helgina. Hann var sérstaklega hylltur í Napólí enda er Maradona í guðatölu í borginni eftir að hafa átt þar sín bestu ár á mögnuðum ferli og leitt liðið að meistaratitlum.
Napoli og Messi heiðruðu goðið
Napoli fagnaði 4-0 sigri gegn Roma í gær í fyrsta leik sínum eftir andlát Maradonas. Mínútu þögn var fyrir leik eins og í öðrum leikjum á Ítalíu, til minningar um argentínska snillinginn, og á 10. mínútu var hlé á leiknum á meðan að klappað var fyrir honum.
Leikmenn Napoli léku í sérstökum búningum sem minntu á argentínska landsliðsbúninginn, og fyrir leik lagði fyrirliðinn Lorenzo Insigne blómvönd fyrir framan stóra mynd af Maradona. Hann fagnaði marki sínu í leiknum með því að ná í Maradona-treyju og kyssa hana.

Lionel Messi heiðraði landa sinn sömuleiðis eftir mark sem hann skoraði gegn Osasuna í 4-0 sigri Barcelona á laugardaginn, í spænsku 1. deildinni. Messi náði í Newell‘s Old Boys treyju, fór í hana og benti til himins.