Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Helstu breytingar eru að varsla á neysluskömmtum verði ekki refsiverð, ráðherra geti með reglugerð kveðið á um hvaða magn ávana- og fíkniefna teljist til eigin nota miðað við neysluskammta og að lögregla hafi ekki lengur heimild til að gera upptæka neysluskammta hjá fóli yfir átján ára aldri.
Um er að ræða fyrsta skipti sem ráðherra leggur til afglæpavæðingu neysluskammta en árið 2019 lögðu þingmenn úr sex flokkum á Alþingi sams konar frumvarp. Það var hins vegar fellt í atkvæðagreiðslu í fyrra.
„Auðvitað vonum við að afglæpavæðingin nái víðtækar utan um tilvist skjólstæðinga frú Ragnheiðar heldur en áður hefur verið talað um. Afglæpavæðing neysluskammta í vörslu er stórt skref og gott fyrsta skref.“

Fíkniefnaneytendur ekki afbrotamenn
Frú Ragnheiður vinnur eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði og hefur lengi kallað eftir opnun neyslurýma og afglæpavæðingu neysluskammta.
„Samfélagsgerðin okkar er flókin og við höfum starfað innan lagaramma em er í takti við refsistefnu sem er að refsa einstaklingi að nota ólögleg vímuefni. Með mögulegu frumvarpi frá heilbrigðisráðuneyti á Íslandi um afglæpavæðingu á Íslandi er stigið skref í áttina að þvi að horfa öðruvísi á þessi mál.“
Í frumvarpinu er talað um að líta á fíkniefnaneytanda sem sjúkling en ekki afbrotamann. Elísabet er sammála þessu.
„Draumastaðan væri að manneskja sem þarf á heilbrigðisþjónustu eða félagslegri þjónustu að halda geti sagt frá stöðu sinni óhrædd við að segja frá stöðu sinni án þess að verða fyrir fordómum eða fái ekki aðstoðina.“