„Eftir útgöngu okkar hafa umræður farið af stað um siðferði góðgerðasamtaka vegna reksturs á spilakössum svo og almenn umræða um spilafíkn. Það er mikill munur fyrir okkur hjá SÁÁ að geta nú tekið þátt í þeirri umræðu eingöngu út frá skjólstæðingum með spilafíkn og aðstoða þá við að ná bata,“ skrifar Einar Hermannsson í pistli á síðu SÁÁ.
Hann segir finna fyrir gríðarlegri ánægju, bæði í samfélaginu og innan samtakanna, með þá ákvörðun að slíta samstarfinu. Einn einstaklingur, sem kaus að halda nafnleynd, ákvað að styrkja samtökin um tíu milljónir í kjölfar ákvörðunarinnar og vildi þannig heiðra minningu eiginkonu sinnar. Hann sé fullur þakklætis fyrir starf SÁÁ.
Brot úr bréfi mannsins var birt með pistlinum á síðu SÁÁ þar sem honum er þakkað fyrir hans framlag:
„Starf SÁÁ hefur lengst af verið fjármagnað með sjálfsaflafé og stuðningi félagsmanna, almennings og áhugamanna um áfengis- og vímuefnavanda. Þar sem spilafíkn er ein tegund fíknar hefur SÁÁ nú tekið þá samfélagslegu og siðferðislegu ákvörðun að taka ekki lengur við fjármunum sem fengnir eru með hagnaði af spilakössum. Af því leiðir tekjumissir fyrir samtökin, tekjumissir sem ég vil koma til móts við með því að heiðra minningu konunnar minnar og eigin edrúmennsku í rúm fjörutíu ár.“