Eftir að eiga sjálf erfiða æsku valdi Ester að fara í fóstureyðingu 27 ára gömul í stað þess að eignast barn áður en hún vann úr eigin áföllum. Ester ræddi þessa erfiðu ákvörðun og ástæðurnar fyrir henni í einlægu viðtali í hlaðvarpinu Kviknar.
„Ég tala algjörlega frá mínu hjarta og örugglega fyrir hönd margra kvenna sem að hafa þurft að taka þessa ákvörðun, að þetta er alltaf erfiðasta ákvörðun sem þú tekur í lífinu.“
Ester varð ófrísk fyrir nokkrum árum og ákvað þá að hún væri ekki tilbúin að eignast barn þar sem hún hafði ekki unnið úr þeim áföllum sem hún hefur orðið fyrir í lífinu. Hennar eigin uppeldi mótaði hana mikið og fylgdu því tilfinningar eins og skömm, sorg og reiði.
„Ég velti þessu svo mikið fyrir mér. Ég kynnti mér hvaða aðstoð býðst fyrir mæður á meðgöngu, hvað varðar sálfræðiaðstoð.“
Ester hugsaði með sér að ef hún myndi taka þessa ábyrgð og eignast þetta barn, leita sér aðstoðar á meðgöngunni, en svo væri kannski allt ennþá í rugli hjá henni með tilheyrandi hræðslu og kvíða. „Mér fannst þetta bara ekki rökrétt“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Í lagi að syrgja
Hún tók ákvörðunina út frá sjálfri sér, en segir samt að hún vilji verða móðir í framtíðinni.
„Þegar þær taka þessa ákvörðun eru þær að forgangsraða fyrir sig og sinn líkama að einhverju leiti. En þarna eins og fyrir mig, var ég svo mikið að hugsa, barnið ég sem lenti í erfiðum aðstæðum sem barn og unglingur. Sem hefði svo innilega viljað fá betri heimilisaðstæður.“
„Ég vildi bara gera betur. Ég vildi að þegar það kæmi að þessu, þá gæti ég verið meira tilbúin til þess að takast á við allt sem þessu fylgir.“
Ester tók þá ákvörðun að vinna í sjálfri sér og áföllunum úr æskunni áður en hún myndi takast á við þetta krefjandi verkefni sem móðurhlutverkið er.
„Þessi ákvörðun var bara hárrétt.“

Hún segir að hún hugsi reglulega um þetta en þetta grói með árunum.
„Eftirsjáin og sorgin var mikil þegar ég tók ákvörðunina fyrst því að þó að þú takir þessa ákvörðun þá er þetta líka sorg.“
Ester segir að margar stelpur og konur leyfi sér ekki að syrgja og finnist þær jafnvel ekki hafa rétt á að syrgja eftir að hafa tekið þessa ákvörðun.
„Þetta er hellings ábyrgð sem þú þarft að taka og ég vildi bara vera tilbúin.“
Hrædd við eigin móður
Ester lýsir því þannig að æskan hafi verið á margan hátt flókin vegna þeirra heimilisaðstæðna sem hún bjó við, sem ekki alltaf hafi verið ákjósanlegar.
„Ég er alin upp af einstæðri móður sem ég veit innst inni að gerði sitt allra besta. Allir foreldrar gera það, ég efast ekki um það. En það var bara ekki alltaf nóg. Það var vanræksla, það var andlegt ofbeldi og á einhverjum tímapunkti líkamlegt líka.“
Ester segir að það hefði svo sannarlega þurft stuðning inn á heimilið, en aðstoðin hafi ekki verið þegin. Sjálf þorði hún ekki heldur að segja neitt við aðra á þessum tíma.
„Ég var rosalega hrædd við þetta,“ útskýrir Ester. Hún óttaðist líka að ef Barnavernd kæmi inn í málið yrðu systkinin hugsanlega aðskilin og vildi hún ekki enda á öðru heimili en yngri bróðirinn.
„Hræðslan spilaði þarna mikið inn í, að vera svolítið mikið hrædd við mömmu sína,“ viðurkennir Ester.
„Það sem hafði hvað mest áhrif á mig var andlega ofbeldið, sem hefur áhrif á hvernig maður á samskipti.“
Aðstæðurnar og mæðgnasambandið hafði mikil áhrif á sjálfsmynd Esterar í langan tíma.
„Mjög lítið sjálfstraust, léleg sjálfsmynd og óöryggi. Þetta eru þau orð sem fylgja mér hvað mest inn í fullorðinsárin.“
Hún segir að það taki mest á að vinna úr og losna við skömmina.

Afbrýðisöm út í falleg mæðgnasambönd
Ester hefur náð að vinna mikið í sjálfri sér og áföllunum síðustu fjögur ár. Hún segir í viðtalinu að hún hafi farið á mis við ákveðna hluti í sinni æsku og upplifir sorgartilfinningar gagnvart því í dag.
„Ég var mjög mikið í henglum þegar ég áttaði mig á þessu fyrst. Þá sér maður að maður er búinn að fara á mis við helling. Það er aðallega þetta að í fyrsta lagi eru kjarnaviðhorfin þín öðruvísi á við þeirra barna sem að eiga fullkomlega ástríka og umhyggjusama æsku en líka bara sorgin að sambandið sem þú átt við foreldri þitt er ekki eins og allra annarra.“
Afbrýðisemi getur því komið upp þegar Ester sér falleg foreldrasambönd og falleg mæðgnasambönd.
„Það er alltaf held ég mikilvægt fyrir stelpur að eiga gott samband við móður sína. Þótt að það geti stundum verið stormasamt því það er alveg eðlilegt líka. En fyrir mig að átta mig á því að ég mun aldrei eiga þetta samband, að eiga gott mæðgnasamband. Það er sorg að átta sig á því og það er sorg líka að lifa með því.“
Ester segir að það sé sér mikilvægt að þegar hún eignist börn, upplifi þau sig örugg.
„Ég vil, þann dag sem ég verð foreldri, sjá til þess að sambandið mitt við mín börn einn daginn verði umhyggjusamt, ástríkt og í alla staði eins fallegt og hægt er.“
Kviknar birtist á Vísi og á öðrum efnisveitum eins og Spotify, Eldri þætti má finna hér.
Hlaðvarpið Kviknar fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Það fjallar líka um raunina eftir að barnið er komið í heiminn. Eðvarð Egilsson sér um tónlistina í þáttunum en umsjónarkona Kviknar er Andrea Eyland.