Lífið

1300 manns keppa í utanvegahlaupi um Hengilsvæðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlauparar leggja af stað fyrstu metrana í 161 kílómetra hlaupinu.
Hlauparar leggja af stað fyrstu metrana í 161 kílómetra hlaupinu. Salomon Hengill Ultra

Keppendur í 161 kílómetra flokki á Salomon Hengil Ultra voru ræstir út klukkan 14 í dag. Sextán keppa í 161 kílómetraflokknum en alls verða keppendur um helgina í kringum 1300 sem er met í utanvegahlaupi hér á landi.

Bestu utanvegahlauparar landsins eru skráðir til leiks og nokkrir erlendir keppendur. Á síðustu tíu árum hefur hlaupið vaxið upp í það að verða einn stærsti íþróttaviðburður landsins og er ásóknin slík að skráningum var lokað í apríl. 

Skipuleggjendur mótsins hafa verið með hóp starfsfólks í Hveragerði frá því um síðustu helgi til að vinna við uppsetningu mótsins.

Vegalengdin 161 kílómetri svarar til 100 mílna. Annað kvöld verða keppendur ræstir í 106 kílómetra flokknum en þátttakendur þar eru um sextíu. Í fyrramálið fara 260 keppendur í 53 kílómetrahlaupinu af stað og í hádeginu um 600 í 26 kílómetra flokknum.

Um 500 keppendur verða svo ræstir eftir hádegið á morgun í 5 og 10 kílómetra hlaupum.

Skipuleggjendur mótsins eru með myndavélar á þremur stöðum og skipta á milli Hveragerðis, Ölkelduháls og Sleggjubeinsskarðs.

Hér má fylgjast með tímatökunni í hlaupinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.