Kosta mun inn á staðinn eftir klukkan tíu á kvöldin, eða 2000 krónur, þá mun staðurinn opna fyrr á kvöldin og jafnframt loka fyrr. Hægt er að vera meðlimur í klúbbnum.
„Mig langaði að auka fjölbreytnina hérna í miðbænum. Ég hef farið á nokkra staði úti í Miami og LA og mig langaði að fanga þá stemningu,“ sagði Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Formlegt opnunarkvöld staðarins er í dag en einhverjir fengu forskot á sæluna í gær þegar útvöldum var boðið til að koma og berja staðinn augum.
„Miðað við opnunarkvöldið í gær held ég að okkur hafi klárlega tekist að fanga þennan anda,“ segir Birgitta.
Eins og áður segir er hægt að vera meðlimur í klúbbnum sem felur það í sér að klúbbsmeðlimir þurfa ekki að borga sig inn á kvöldin en svo er hægt að fá svokallað „Elite-membership“ en handhafar þeirrar áskriftar geta tekið með sér gest á klúbbinn, farið fram fyrir röðina og fengið ýmsa afslætti.
„Síðan fylgir alltaf drykkur með þegar þú kaupir kvöldpassa,“ segir Birgitta.
Hún segist viss um að stemningin á Bankastræti verði frábær í kvöld en rapparinn Bassi Maraj mun troða upp og plötusnúðurinn Egill Ástráðs mun spila fyrir gesti.