Ari spilaði allan leikinn í miðri vörn Strömgodset sem vann öruggan 3-0 heimasigur á Odd Grenland í kvöld. Jack Ipalibo, Tobias Gulliksen og Hermann Stengel skoruðu mörk Strömgodset í leiknum en sigurinn skaut liðinu upp að hlið Odd í töflunni, en bæði eru með 19 stig í 8.-9. sæti. Valdimar Þór Ingimundarson sat allan tíman á varamannabekk Strömgodset.
Haugesund er með sama stigafjölda í 7. sæti deildarinnar eftir 1-1 jafntefli við Sandefjord í kvöld. Viðar Ari Jónsson spilaði allan leikinn fyrir Sandefjord sem er í 11. sæti deildarinnar með 16 stig.
Emil Pálsson spilaði síðustu tíu mínúturnar í liði Sarpsborgar í ævintýralegu jafntefli Sarpsborgar við Mjöndalen. Þar skoraði lið Sarpsborgar jöfnunarmark á áttundu mínútu uppbótartíma.
Sarpsborg er með 14 stig í 12. sæti deildarinnar, tveimur stigum fyrir ofan mótherja sína í Mjöndalen sem eru sæti neðar.