Skoðun

Umfaðmandi sósíalískur femínismi

Jóna Guðbjörg Torfadóttir skrifar

Hugtakið femínismi leggst mjög misjafnlega í fólk. Blessunarlega er talsverður fjöldi sem aðhyllist femínismann en einnig er býsna mörgum í nöp við hann. Þau síðarnefndu kalla sig þó vel flest jafnréttissinna sem þau telja af allt öðrum toga, enda engar femínistafrekjur og karlahatarar þar á meðal. Það má þó ætla að hér á ferð sé um talsverðan misskilning að ræða því þó svo að femínismi eigi sér vissulega margar birtingarmyndir þá snýst hann í grunninn einfaldlega um jafnrétti og þar sem það hallar mjög á konur í því efni beinast þangað sjónir; rétta þarf hlut kvenna.

Líkt og fyrr segir finnast ýmsar mismunandi áherslur innan femínismans sem ráðast meðal annars af stétt og stöðu. Svonefndur borgaralegur femínismi hefur verið áberandi um langt skeið en hann leggur sig fyrst og fremst í líma við að berjast fyrir réttindum kvenna á forsendum þess karlmiðaða samfélags sem við búum við; áherslan er á einstaklingsfrelsi og jöfn tækifæri kynjanna. Þessi nálgun hefur hins vegar gert það að verkum að þær konur sem eru hvað verst settar í samfélaginu hafa orðið útundan. Þar kemur sósíalískur femínismi til sögunnar.

Það er auðvelt að spyrða sósíalisma saman við femínisma því þar er sannarlega ákveðinn samhljómur. Það má jafnvel ganga svo langt að fullyrða að erfitt sé að vera annað án hins. Í báðum tilvikum er barist fyrir réttlátara samfélagi svo að allir fái lifað mannsæmandi lífi og til þess arna er horfst í augu við að rétta þurfi hlut þeirra sem eru verst staddir, sem oftar en ekki eru konur.

Fátt er mikilvægara en fjárhagslegt sjálfstæði. Það er ávísun á valkosti, á borð við að ganga menntaveginn, velja sér starf við hæfi, velja búsetu o.s.frv. Án fjárhagslegs sjálfstæðis er sjálfræði manneskjunnar skert, hún er undir aðra komin líkt og ófullráða barn sem hægt er að ráðskast með að vild. Allt of margar konur eru í þessari stöðu, fastar í gildru fátæktar og neyðar. Fjárhagslegt sjálfstæði er algjör forsenda jafnréttis og því er hún brýn þörfin á kærleiksríku hagkerfi sósíalismans með umfaðmandi femínisma. Sósíalískur femínismi rúmar nefnilega alla!

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×