„Fjöldi fólks studdi þennan frambjóðanda og flokkinn í kosningum og áður en að búið er að setja þing er sá sem kosinn var út á það að vera í framboði fyrir miðflokkinn farinn í annan flokk og virðist hafa lagt drög að því í einhvern tíma,“ sagði Sigmundur í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Birgir Þórarinsson, þingmaður í Suðurkjördæmi, tilkynnti í gær að hann væri genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, tveimur vikum eftir þingkosningar og eftir fjögurra ára þingsetu fyrir Miðflokkinn.
„Ég held að ég verði bara að biðja flokksmenn afsökunar fyrir hönd flokksins að þetta hafi farið svona og raunar kannski kjósendur sem ætluðu ekki að verja atkvæði sínu til að styðja þingmann sjálfstæðisflokksins.“
Birgir gaf þær skýringar í gær að Klaustursmálið svokallaða hafi verið ástæða þess að hann hefði ákveðið að segja skilið við flokkinn, en málið kom upp fyrir þremur árum síðan. Sigmundur segist ekki gefa mikið fyrir þær skýringar og telur vistaskipti Birgis hafa verið í undirbúningi í nokkurn tíma.
„Auðvitað gerist þetta mjög snögglega, þetta kemur upp á yfirborðið snögglega en það voru greinilega búin að eiga sér stað einhver samtöl þarna,“ segir Sigmundur.
Nú eru aðeins tveir menn eftir í þingflokki Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, en Sigmundur tekur fyrir að flokkurinn sé í krísu.
„Nei, nú ætla ég að vera ósammála þér þó ég hafi tekið undir ýmsar áhyggjur þínar í þættinum. Miðflokkruinn er vel stemmdur,“ segir Sigmundur.
Birgir hafi siglt undir fölsku flaggi
Sigmundur segist velta fyrir sér kosningakerfinu vegna þessa. Það sé byggt á því að fólk kjósi flokka og treysti á að frambjóðendur sigli ekki undir fölsku flaggi.
„Menn þurfa að geta treyst því að frambjóðendur séu ekki að sigla undir fölsku flaggi. Þeir séu raunverulega hluti af þeim hópi, þeim flokki, sem viðkomandi kjósandi treystir fyrir atkvæði sínu. Auðvitað getur komið upp pólitískur ágreiningur innan flokka og við höfum séð mörg dæmi um það á undanförnum árum að fólk hafi farið á milli flokka,“ segir Sigmundur.
„En það hefur þá gerst í framhaldinu af einhverri uppákomu, einhverjum pólitískum ágreiningi. Það á augljóslega ekki við í þessu tilviki, þegar ekki var einu sinni búið að halda þingflokksfund, ekki var búið að setja Alþingi og menn ekki einu sinni komnir með kjörbréfið. Það er, finnst mér, ekki góð framkoma gagnvart kjósendum, sem hafa nú mátt þola slæma framkomu af hálfu stjórnmálamanna sem eru alltaf að gefa frá sér valdið, lofandi hverju sem er fyrir kosningar en gera svo ekkert með þau fyrirheit.“