Lífið

Blendnar til­finningar fót­bolta­að­dá­enda eftir grín flug­stjóra í flugi PLAY

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Víkingur varð bikarmeistari í þriðja skipti í sögu félagsins í gær.
Víkingur varð bikarmeistari í þriðja skipti í sögu félagsins í gær. Vísir/Hulda Margrét

Farþegar á leið til Alicante fengu nokkuð óvæntar fréttir af bikarúrslitaleik Víkings og ÍA í miðju flugi í gær. Flugstjórinn tilkynnti farþegum um borð að ÍA hefði sigrað í vítaspyrnukeppni.

Hanna Símonardóttir var um borð í vélinni og telur að flugstjórinn hafi haldið gríninu til streitu líklega í klukkutíma eða tvo. Flugstjórinn leiðrétti grínið ekki fyrr en við lendingu, stuðningsmönnum Víkings til mikillar ánægju.

Flugstjórinn kvað dramatískt atvik hafa komið upp í bikarúrslitaleiknum og að þrír fótboltamenn Víkings hafi fengið rautt spjald í leiknum. Skagamenn hafi jafnað í kjölfarið og unnið 11-10 í vítaspyrnukeppni. Farþegar klöppuðu þá ýmist eða syrgðu.

Síðar í fluginu leiðrétti flugstjórinn fyrri tilkynningu og sagði vítaspyrnukeppnina hafi farið 8-7, Skagamönnum í vil. Enn sátu aðdáendur Víkings eftir með sárt ennið.

„Hann var alveg orðinn grautur á mér hausinn sko"

„Ég gat ekki hætt að hugsa um þetta alla ferðina,“ segir Hanna, en nettenging er almennt af skornum skammti um borð í flugvélum. Hanna segir í samtali við fréttastofu að hún hafi verið alveg gáttuð á framvindu leiksins enda mikill fótboltaaðdáandi sjálf. „Hann var alveg orðinn grautur á mér hausinn sko," segir Hanna létt í bragði.

Hanna er mikil áhugakona um fótbolta.

Í lendingu fór flugstjórinn yfir veðrið í Alicante eins og venja er, og sagði leikinn hafa endað með öðrum hætti en áður hafði verið tilkynnt. Flugstjórinn kvaðst vera Bliki, dálítið svekktur út í Víkingana, fyrir að hafa stolið af þeim titlinum. Leiknum hafi í raun lokið með sigri Víkinga 3-0.

Að sögn Hönnu var klappað þegar raunveruleg úrslit bikarleiksins voru tilkynnt en Skagamenn um borð hafa ólíklega verið ánægðir.

Hanna er mikill knattspyrnuunnandi, harður stuðningsmaður Liverpool á Englandi og Aftureldingar hér heima.

Anton Ari sonur hennar er markvörður Breiðabliks og Magnús Már sonur hennar þjálfar karlalið Aftureldingar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.