Sem kunnugt er fór Emil í hjartastopp í leik Sogndal og Stjørdals-Blink í norsku B-deildinni í fyrradag. Hann var lífgaður við á staðnum og fluttur með sjúkraþyrlu á sjúkrahúsið í háskólasjúkrahúsið í Haukeland í Björgvin.
Emil er vakandi og staðan á honum er góð miðað við aðstæður. Fjölskylda hans hitti hann í dag og sömu sögu er að segja af Bakke og Marius Lenni Bøe, aðstoðarþjálfara Sogndal.
Á Facebook-síðu Sogndal sagði Bakke að það hafi legið ágætlega á Emil þegar hann hitti hann og það hafi sérstaklega verið gott að sjá Vestfirðinginn brosa.
Í svari við fyrirspurn Vísis sagði Geir Inge Heggestad, upplýsingafulltrúi Sogndal, að Emil yrði á spítala næstu daga og myndi gangast undir frekari rannsóknir.
Að sögn Heggesteds hafa samherjar Emils hjá Sogndal það ágætt. Þeir æfðu af fullum krafti í dag og gera það aftur á morgun. Á föstudaginn fer Sogndal til Oslóar þar sem liðið mætir KFUM Oslo í norsku B-deildinni á laugardaginn.
Leikurinn kláraður eftir viku
Leikur Sogndal og Stjørdals-Blink í fyrradag var flautaður af eftir að Emil hné niður. Þá voru tólf mínútur liðnar af leiknum og Sogndal var með 1-0 forystu.
Síðustu 78 mínútur leiksins verða kláraðar næsta miðvikudag. Fyrir leikinn munu leikmenn Sogndal sýna Emil stuðning með táknrænum hætti.