Fyrstu gestir Kristjáns í dag eru þau Friðrik Jónsson, formaður BHM, Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs og Kristrún Frostadóttir, alþingiskona Samfylkingarinnar. Þau ætla að rýna í efnahagsmálin, ræða verðbólgu, vexti og hagvaxtaraukann.
Þá verður rætt við Halldóru Þorsteinsdóttur, héraðsdómara og lektor við lagadeild HR, og sérfræðing í fjölmiðlarétti. Rætt verður um tjáningarfrelsi, friðhelgi einkalífs og sakamálaréttarfar og lykilhugtakið „saklaus uns sekt er sönnuð,“ verður kannað. Komið verður sérstaklega inn á sönnunarbyrði ákæruvaldsins í þessum málum.
Næst mæta Óli Björn Kárason, Hanna Katrín Friðriksson og Oddný Harðardóttir alþingismenn. Þau munu ræða söluna á Mílu og fleiri mál.
Síðast mætir dr. Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem sérhæfir sig í málum Austur-Evrópu. Þar verða átökin á landamærum Póllands og Hvíta-Rússlands til umræðu en þar hafa mikil átök geisað. Ástandið hefur víða áhrif á önnur óskyld mál, til að mynda orkuframboð og orkuverð í Evrópu.