Menning

„Ef hjartað er á réttum stað þá bara gerast hlutirnir“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Frá jólasýningunni Jólaævintýri Þorra og Þuru.
Frá jólasýningunni Jólaævintýri Þorra og Þuru. Eyþór Árnason

„Árið 2021 er búið að vera annasamasta árið okkar frá upphafi,“ segir leikkonan og leikstjórinn Agnes Wild einn stofnanda atvinnuleikhópsins Miðnættis.

Miðnætti er atvinnuleikhópur sem undanfarin ár hefur fest sig í sessi sem framúrskarandi sviðslistahópur sem sérhæfir sig í vönduðu menningarefni fyrir börn og ungmenni. Miðnætti hópurinn var stofnaður árið 2015 en þau hafa aldrei haft jafn mikið af verkefnum í gangi, og það í miðjum heimsfaraldri. 

„Í janúar var brúðusýningin Geim-mér-ei frumsýnd á litla sviði Þjóðleikhússins. Færri komust að en vildu. Í apríl var frumsýnt spennandi samstarfsverkefni með nýsirkushópnum Hringleik, sýningin Allra veðra von var frumsýnd í Tjarnarbíó og svo sýnd utandyra um allt land sumarið 2021.“ 

Sýningin hlaut Grímuverðlaunin í flokknum Dans- og sviðshreyfingar ársins.  Þetta var bara byrjunin því síðan þá hefur hópurinn gefið út tvær bækur og sett tvær nýjar sýningar á svið svo dæmi séu nefnd. Árið 2021 er því búið að vera einstaklega stórt fyrir hópinn. 

„Í gegnum tíðina hefur einhvern veginn bara eitt leitt af öðru. Ef viðfangsefnið er skemmtilegt þá er alltaf eitthvað nýtt sem er hægt að gera,“ segir Agnes. 

Frá barnasýningunni Tjaldið sem Miðnætti setti upp í Borgarleikhúsinu.Borgarleikhúsið/Eyþór Árnason

Álfarnir fengu „makeover“

Tvær aðrar listakonur stofnuðu hópinn með Agnesi, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir, en með hópnum starfar einnig fjöldi frábærra listamanna. Þó að Miðnætti hafi byrjað að starfa árið 2015 þá urðu tvær persónur leikhópsins, Þorri og Þura, fyrst til árið 2006 sem leikskólasýning þegar Agnes og Sigrún voru í menntaskóla. 

„Karakterarnir urðu strax skemmtilegir og mörg lög fæddust strax í fyrstu sýningunum sem við syngjum enn í dag, eins og Hálfur álfur og Ef þú vilt komast í álfanna heim,“ segir Agnes. 

Eftir að Agnes og Sigrún menntuðu sig erlendis í leiklist og tónlist komu þær heim og stofnuðu Miðnætti ásamt Evu Björgu Harðardóttur, leikmynda- og búningahönnuði. 

„Þorri og Þura fengu smá makeover, glæsilega búninga og leikmynd. Svo fóru hjólin að snúast, fleiri sýningar og sögur skapaðar, sjónvarpsþættir, tónlist gefin út og svo núna nýlega tvær bækur. Heimurinn stækkar og fleiri karakterar verða til, eins og afi, Eysteinn álfastrákur og Hulda búálfur - sem núna heimsækja leikskóla landsins með jólaleikrit.“

Ótrúlega heppnar

Í sumar kom út bókin Þorri og Þura - Tjaldævintýrið og nú fyrir jólin kom út bókin Þorri og Þura - Jólakristallinn. Agnes er höfundur bókanna en Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytti. Annað dæmi um ævintýri sem vatt hratt upp á sig var  

„Við bjuggum til litla og fallega brúðusýningu sem heitir Á eigin fótum og frumsýndum í Tjarnarbíó 2017. Erlendar hátíðir fóru að hafa áhuga á sýningunni, sem fjallar um litla stelpu sem er send í sveit sumarlangt og byggð á sögum ömmu hennar Agnesar, Ninnu. Síðan þá höfum við sýnt Á eigin fótum á Grænlandi, Póllandi, Eistlandi og á rafrænu heimsþingi barnaleikhúsa í Japan,“ útskýrir Agnes.

„Ef hjartað er á réttum stað þá bara gerast hlutirnir. En við erum ótrúlega heppnar með allt fólkið í kringum okkur, leikara, tónlistarfólk, tæknifólk, framleiðslufólk og fleiri sem koma að verkefnunum okkar með einum eða öðrum hætti. Án þeirra væri ekkert af þessu hægt.“

Jólaævintýri Þorra og Þuru.Eyþór Árnason

Skemmtilegt sjá börnin syngja með

Verkefni Miðnættis hafa einkennst af fallegri og vandaðri hönnun, en einnig hafa leiklist og tónlist haldist í hendur og gengt jafn mikilvægu hlutverki og verið í lifandi flutningi í öllum verkum Miðnættis. Jólaævintýri Þorra og Þuru er nú komið aftur á svið í Tjarnarbíói, þriðju jólin í röð.

Jólaævintýri Þorra og Þuru er skemmtileg, spennandi og hugljúf sýning fyrir börn á leikskólaaldri og fyrstu bekkjum grunnskóla og fjölskyldur þeirra.

„Það er dásamlegt að fá að sýna þessa skemmtilegu sýningu þriðja árið í röð í Tjarnarbíó. Við frumsýndum haustið 2019 og sýndum allar helgar fyrir troðfullu húsi. Í fyrra var aðeins önnur stemming vegna heimsfaraldurs, en við náðum einni góðri sýningarhelgi þegar samkomutakmörkunum var aflétt og svo sýndum við í beinu streymi fyrir fyrirtæki. Í ár er frábær aðsókn líka og við erum ótrúlega þakklát fyrir jákvæð viðbrögð. Það var ótrúlega skemmtilegt að hitta hundruð barna á 17. Júní í sumar, en Þorri og Þura komu fram á fimm mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Margir krakkar höfðu komið sérstaklega til að sjá Þorra og Þuru, kunnu lögin og sungu með. Margir hafa sent okkur skilaboð í kjölfar sjónvarpsþáttanna Týndu jólin sem komu út jólin 2018 og Þorri og Þura: Vinir í raun sem kom út um páskana 2021, hrósað fallegum boðskap um vináttu og skemmtilegri tónlist.“

Vissu ekki hvað þær fóru út í

Jólasýningin er 45 mínútur og full af stórskemmtilegri frumsaminni tónlist. 

„Þorri og Þura eru að undirbúa jólin. Þegar afi Þorra þarf að bregða sér frá biður hann þau að gæta jólakristalsins, sem er uppspretta allrar jólagleði í öllum heiminum. Það gengur ekki nógu vel hjá þeim því allt í einu hættir jólakristallinn að lýsa. Þorri og Þura leggja af stað í ævintýraferð til að finna leið til að kveikja aftur á kristalnum og finna jólagleðina í hjartanu. Þau lenda í ýmsum hremmingum, en allt fer þó vel að lokum. Þetta er hugljúf saga sem minnir okkur á að lítil góðverk geta haft mikil áhrif og kærleikurinn er sterkasta aflið í heiminum.“

Hópurinn Miðnætti sýnir einnig barnasýninguna Tjaldið í Borgarleikhúsinu þessa dagana. Eins og fram hefur komið hér á Vísi er um að ræða sýningu sem hentar einstaklega vel fyrir fyrstu leikhúsheimsókn yngstu barnanna.

„Já og nei. Það er auðvitað mikil vöntun á afþreyingu og listviðburðum fyrir börn yngri en þriggja ára, en á sama tíma vissum við ekkert hvað við vorum að fara út í, við höfum aldrei áður gert sýningu sem fókusar á þennan aldur,“ segir Agnes um það hvort viðbrögðin við tjaldinu hafi komið á óvart. Uppselt hefur verið á tugi sýninga. 

Úr barnasýningunni Tjaldið.Borgarleikhúsið/Eyþór Árnason

Brenna fyrir barnamenningu

„Það er áskorun að búa til sýningu sem þessi allra allra yngstu tengja við, en á sama tíma segja fallega sögu sem foreldrar tengja við. Við nýttum okkur ýmsa töfra leikhússins, leikmynd, búninga, brúður og skugga, líka einfalda og fallega tónlist, skýr orð og tákn með tali. Í lok sýningar er frjáls leikstund þar sem börnin frá að snerta, prófa og spjalla. Við höfum fengið fjölda skilaboða frá fólki, margir lýsa gleðinni að hafa upplifað eitthvað með barninu sínu í fyrsta skipti, sum börn eru ekki komin með leikskólapláss og því enn meira gefandi að fá að hitta önnur börn og foreldra,“ segir Agnes. Þau hafa fengið fjölda skilaboða frá foreldrum, sem þeim þykir einstaklega vænt um að lesa.

„Það er ótrúlega gefandi að fá viðbrögð sem þessi, enda er þetta ástæðan fyrir því að við brennum fyrir barnamenningu.“

Jólaævintýri Þorra og Þuru.Eyþór Árnason

Miðnætti hefur hlotið mikið lof fyrir verkefni sín og hlotið tilnefningar til Grímuverðlaunanna. Draumurinn er að gera stóran fjölskyldusöngleik þar sem Agnes leikstýrir, Eva Björg hannar búninga og Sigrún semur tónlist.

„Það væri algjör draumur að vera ráðin inn af stóru leikhúsunum sem listrænir stjórnendur og setja á svið stóran fjölskyldusöngleik,“ segir Agnes. „Við erum orðnar mjög vanar því að vinna saman og skiljum vel samspil mismunandi listgreina í þessari stóru listrænu heild sem birtist okkur í leikhúsinu.“

Álfarnir Þorri og Þura hafa heimsótt þúsundir leikskólabarna með farandssýningum sínum síðan árið 2008 og komið fram á ýmsum hátíðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.