Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
Ég er mjög mikið jólabarn og skilgreini mig sem Elf. Ég elska þennan árstíma og byrja helst í nóvember að skreyta og hlusta á jólalög.
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
Þær eru margar ljúfar minningar úr æsku, það er eitthvað svo töfrandi við jólin sem barn. Þorláksmessukvöld var alltaf fjörugt, þá kom jólatréð í hús og við fengum að skreyta. Síðan vorum við böðuð og sett í ný náttföt, um kvöldið/nóttina kláruðu svo mamma og pabbi að pakka inn pökkum og gera heimilið einstaklega fínt. Að labba niður stigann full eftirvæntingar á aðfangadagsmorgun og sjá alla pakkana og kósíheitin á heimilinu er minning sem ég held mikið upp á. Morguninn byrjaði svo á jólamynd og svo keyrðum við út jólakortum. Ljúfar og góðar minningar.
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Pakkarnir frá stelpunum mínum, það eru uppáhalds gjafirnar og ég bíð spennt eftir að opna þær á aðfangadag. Fallegt föndur sem þær hafa búið til í leikskóla og skóla.
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Hmm, ég held í alvörunni að ég hafi ekki fengið svo slæma jólagjöf og mér dettur ekkert í hug.
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
Ég er ein af þeim örfáu sem sendi jólakort en mér finnst það svo skemmtilegt og ég elska að fá jólakort. Svo er það bara aðventan, að njóta hennar með heitu súkkulaði og rjóma helst alla daga fram að jólum og auðvitað spilar jólabaksturinn stórt hlutverk í jólahefðum fjölskyldunnar.
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
It's Beginning to Look a Lot Like Christmas
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
Ég hef horft á The Grinch snemma á aðfangadag undanfarin tíu ár eða meira, finnst hún ómissandi.
Hvað borðar þú á aðfangadag?
Yfirleitt er það nú Beef Wellington með öllu tilheyrandi.
Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?
Náttföt og bækur, það eru svo margar spennandi bækur sem mig langar í. Að fara í ný náttföt með nýja bók upp í rúm á aðfangadagskvöld er draumur.. og það mega fylgja konfektmolar með þessari blöndu.
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
Heimilið skreytt, börnin spennt og góður matur.
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
Heldur betur, ég er að fylgja eftir fjórðu bókinni minni Bakað með Evu sem kom út fyrir jólin og það er alltaf svo skemmtilegt. Svo er mikill bakstur og fjör þennan mánuðinn sem ég elska.
Blindur bakstur hóf einnig göngu sína síðastliðinn sunnudag og fór þáttaröðin vel af stað með Birnu og Bassa. Gestirnir mínir eru svo frábærir og fyrstu tveir þættirnir eru í hátíðarbúning en svo eftir áramót koma átta „venjulegir“ þættir þar sem bökum ýmislegt spennandi.