Þetta er niðurstaða Landsréttar sem kveðin var upp fyrir stundu. Þarf ríkið því að greiða 610 milljónir í bætur en frá upphæðinni dragast bætur sem ríkið hafði áður greitt Guðjóni og Kristjáni Viðari.
Kröfurnar má rekja til Guðmundar- og Geirfinnsmálsins svokallaða en Tryggvi Rúnar og Kristján voru sakfelldir vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar árið 1980. Guðjón var á sama tíma dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að hafa átt hlut í dauða Geirfinns.
Hér að neðan má sjá viðtal við Ragnar Aðalsteinsson, lögmann Guðjóns, sem tekið var í Landsrétti eftir að dómur féll.
Þeir voru allir þrír sýknaðir í Hæstarétti árið 2018 ásamt Sævari Marinó Cieselski og Alberti Klahn Skaftasyni eftir að málið var endurupptekið.
Alls fór dánarbú Kristjáns Viðars fram á 1,63 milljarða í miskabætur en dánarbú Tryggva Rúnars fór fram á 1,6 milljarða króna í bætur. Guðjón krafðist 1,3 milljarða í bætur.
Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið af kröfunum á síðasta ári en um er að ræða þrjú aðskilin mál. Þeim var áfrýjað til Landsréttar sem kvað upp úrskurð sinn í dag.
Hér að neðan má sjá viðtal við Arnar Þór Stefánsson, lögmann dánarbús Kristjáns Viðars Júlíussonar, sem tekið var í Landsrétti eftir að dómur féll.
Alls voru 774 milljónir greiddar úr ríkissjóði á síðasta ári til þeirra sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í Hæstarétti í september 2018 og til maka og barna þeirra tveggja sem látnir eru. Þá fékk Kristján Viðar 204 milljónir og aðstandendur Tryggva Rúnars alls 171 milljón en Guðjón Skarphéðinsson 145 milljónir.