Kolbrún varð í 2. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins 2021 sem var lýst í gær. Hún fékk 387 stig í kjörinu, 58 stigum minna en handboltamaðurinn Ómar Ingi Magnússon.
Kolbrún var í lykilhlutverki í íslenska kvennaliðinu sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum fyrr í þessum mánuði. Hún framkvæmdi erfiðustu stökk mótsins og var valin í úrvalslið þess í fjórða sinn. Þá varð Kolbrún Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni.
Sem fyrr sagði hefur einstaklingur úr fimleikum aldrei verið ofar í kjörinu á Íþróttamanni ársins en Kolbrún. Tvisvar hefur fimleikafólk verið í 3. sæti í kjörinu; Rúnar Alexandersson 2004 og Íris Mist Magnúsdóttir 2010.
Fjórtán sinnum hefur fimleikafólk verið á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins síðan byrjað var að veita verðlaunin 1956. Kristín Gísladóttir var sú fyrsta en hún hafnaði í 9. sæti í kjörinu 1983. Fjóla Ólafsdóttir varð svo í 4. sæti 1988.
![](https://www.visir.is/i/1D5AC5D5FCCEEE69EA25DA38A5E8A8A735EAB1C237A6245F021D7787E997B081_713x0.jpg)
Rúnar komst fimm sinnum á topp tíu listann; 1998 (7. sæti), 1999 (6. sæti), 2000 (8. sæti), 2002 (7. sæti) og 2004 (3. sæti). Valgarð Reinhardsson varð svo í 9. sæti í kjörinu 2018.
Elva Rut Jónsdóttir varð í 10. sæti 1999, Sif Pálsdóttir í því níunda 2006 og sjöunda 2014 og Íris Mist varð þriðja 2010 og níunda 2012. Hún var í stóru hlutverki í kvennaliði Íslands sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum 2010 og 2012.
![](https://www.visir.is/i/C7218B9FBDBFE731256235B33462AF9B39992F11F44AAAF98A96B1F3DA7EC640_713x0.jpg)
Ísland hafði ekki unnið gull í kvennaflokki á EM síðan 2012 þar til Kolbrún og stöllur hennar bundu endi á eyðimerkurgönguna í ár. Ísland hafði endað í 2. sæti á eftir Svíþjóð á þremur Evrópumótum í röð.
Kvennalið Íslands í hópfimleikum var valið lið ársins 2021 líkt og 2012 þegar verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn.
Samherji Kolbrúnar í kvennaliðinu, Ásta Kristinsdóttir, varð í 14. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins með 31 stig. Helgi Laxdal Aðalgeirsson, úr karlaliðinu sem vann silfur á EM, varð í 16. sæti með 24 stig. Þau voru bæði valin í úrvalslið EM.