Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt heimsóttum við Mjóafjörð að vetri en til að komast þangað á þessum árstíma þarf að sigla frá Norðfirði. Landleiðin um 578 metra háa Mjóafjarðarheiði er ófær að vetrarlagi.
Lok skólahalds mörkuðu ákveðin þáttaskil fyrir byggðina en Erna Ólöf Óladóttir kenndi síðasta grunnskólanemandanum, dóttur sinni.
„Og var bara mjög erfitt að þurfa að kveðja skólann,“ segir Erna.
Þegar engin börn eru í skóla, hver er þá framtíð byggðarinnar?
„Það er nefnilega heila málið, sko. Hún er afar tæp,“ svarar Sigfús Vilhjálmsson, útvegsbóndi á Brekku.
„Það sem ég sé svona sem gæti ýtt undir byggð hér snöggt, það er laxeldið,“ segir Sævar Egilsson, útgerðarmaður og vélstjóri.
Sigfús segir að þeir fáu íbúar sem eftir eru í Mjóafirði séu sammála um þetta. Þeir sjái ekkert því til fyrirstöðu að fá fiskeldi í fjörðinn.
„En þeir virðast frekar vilja setja þetta á Fáskrúðsfirði, þótt Fáskrúðsfirðingar segðu nei. Þeir vilja setja þetta á Seyðisfjörð, þó Seyðfirðingar segi nei.
En við segjum bara: Já, já ,já. Tilbúnir í hvað sem er. En fáum ekki neitt,“ segir Sævar.
Á veturna er byggðin eins og afskekkt eyja. Íbúarnir vilja jarðgöng. Meðan Mjófjarðarheiði er ófær í 160 daga að jafnaði á ári eru Mjófirðingar ósáttir við að göng undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar séu í forgangi.
„Menn komast ekkert, bara í gegnum Fjarðarheiði á Seyðisfjörð. Stopp. Það þarf að hringtengja svæðið fyrst, segi ég. Og ég stend við það. Og ég get þessvegna drepist með það,“ segir Sigfús á Brekku.
„Þetta sem var kallað Samgöng, sem sagt Norðfjörður-Mjóifjörður, Mjóifjörður-Seyðisfjörður og svo tenging í Hérað, hvernig sem hún er best,“ útskýrir Sævar.
Þáttinn um Mjóafjörð má sjá á streymisveitunni Stöð 2+. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
