Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitir hafa verið að störfum á Reykjanesinu fram á nótt.
„Nánast allar björgunarsveitir á Suðurnesjum voru að störfum til að verða klukkan þrjú í nótt til að greiða úr einhverjum flækjum,“ segir Davíð. „Það voru menn sem að höfðu misst bílana sína út af og fest bíla sem að þurfti að græja. Einhverjir voru fluttir úr bílunum og bílar skildir eftir.“
Rúta með stuðningsmönnum Njarðvíkur fór til að mynda út af veginum í gærkvöldi en rútan hafnaði á staur með þeim afleiðingum að framrúðan brotnaði.
„Rétt áður en við vorum komin heim kom vindhviða inn í hliðina á rútunni og hún feyktist til hliðar,“ segir Agnar Mar Gunnarsson, þjálfari í yngri flokkum hjá Njarðvík, sem var einn af farþegunum í rútunni.
Um fjörutíu börn voru í rútunni en betur fór en á horfðist þar sem enginn slasaðist, þó að börnin væru vissulega skelkuð.
Flest verkefnin á Suðvesturlandi
Gular viðvaranir voru í gildi á nær öllu landinu í gærkvöldi og í nótt en Davíð segir helstu verkefni Landsbjargar hafa verið á suðvesturhorni landsins.
„Björgunarsveitir voru reyndar kallaðar út til að vera í viðbragðsstöðu við að loka Hellisheiði0 og Þrengslum og fljótlega eftir miðnætti, um klukkan eitt, var þeim vegum lokað og voru þeir lokaðir í nótt þannig það var ekki meira að gera þar,“ segir Davíð.
Veðurviðvaranir hafa verið verulega tíðar það sem af er ári og hafa björgunarsveitirnar þurft að sinna fjölmörgum verkefnum.
„Það er náttúrulega búið að vera mikið um að vera hjá björgunarsveitum í febrúar og virðist ætla að halda áfram núna í mars, það er enn þá vetur á Íslandi,“ segir Davíð en hann segir mikilvægt að fólk fari varlega.
„Veður getur spillst mjög fljótt þannig að það er mikilvægt að fólk ani ekki út í veður og gæti öryggis, sé vel búið, og fylgist vel með upplýsingum um færð og veður áður en það heldur út í ferðalög,“ segir Davíð.