Listaverkið hefur vakið nokkurra athygli, ekki síst fyrir þær sakir, að hluti þess er bronsafsteypa af styttunni Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku eftir Ásmund Sveinsson, sem hvarf af stalli sínum af Snæfellsnesi á dögunum.
Styttan dúkkaði svo upp í listaverki Bryndísar og Steinunnar, inn í eldflaug. Verkið var afhjúpað fyrir utan Marshall-húsið fyrr í mánuðinum.
Stuldurinn á styttunni var kærður og hefur lögregla lagt hald á listaverkið. Er listaverkið, og styttan, í geymslu lögreglu á Akranesi á meðan rannsókn málsins stendur yfir.
Í grein sem Bryndís og Steinunn birtu á Vísi í dag segjast þær aldrei hafa viðurkennt að hafa stolið styttunni.
Þá gera þær þá kröfu á hendur lögreglunnni að listaverkinu verði skilað. Þá telja þær óskynsamlegt að fjarlægja styttuna úr geimflauginni.
Okkur hefur verði tilkynnt að næsta skref lögreglunnar sé að aðskilja verkin tvö. Á meðan enn er tekist á um hvað skuli gera við þann menningararf sem kjarnast í styttunni Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, þá teljum við með öllu óskynsamlegt að skilja verkin að. Geimflaugin er að svo stöddu besti staðurinn fyrir þessa afsteypu af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku. Við skorum því á lögregluna að láta ekki verða af aðskilnaðinum, heldur skila verkinu Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum óbreyttu aftur á sinn stað fyrir framan Marshallhúsið, skrifa þær.