Sveinn, sem er 23 ára, hlaut fótboltauppeldi hjá Barcelona þar sem Eiður Smári pabbi hans spilaði. Í meistaraflokki hefur hann leikið á Íslandi, Ítalíu og í Danmörku áður en hann kom svo til Elfsborg í ágúst og náði að skora þrjú mörk í ellefu deildarleikjum.
Sveinn hefur svo skorað þrjú mörk í fyrstu sex leikjunum í ár, þrátt fyrir að hafa aðeins fengið einn leik í byrjunarliði.
„Mér finnst hafa gengið vel. Ég hef komið inn af bekknum og staðið mig ágætlega,“ segir Sveinn í viðtali við Fotbollskanalen.
Sveinn Aron Gudjohnsen (1998) scores every 48th minute for @IFElfsborg1904 in Allsvenskan. Goal machine pic.twitter.com/u7sM86Ciwn
— Magnus Agnar Magnusson (@totalfl) May 5, 2022
„Ég er orðinn vanur þessu“
Sænski miðillinn minnir á að Sveinn sé sonur Eiðs sem og Arnórs Guðjohnsen sem lauk einmitt atvinnumannsferlinum með eftirminnilegum hætti í Svíþjóð.
„Þetta hefur alltaf verið venjulegt fyrir mér. Ég þekki ekkert annað en að tilheyra þessari fjölskyldu svo að þetta er bara mjög eðlilegt fyrir mér,“ segir Sveinn. En er erfitt að lifa með samanburðinum við pabba og afa?
„Ég hugsa ekkert um það. Þetta hefur alltaf verið svona og verður alltaf svona. Ég er orðinn vanur þessu,“ segir Sveinn sem lék sinn fyrsta A-landsleik í fyrra og hefur nú spilað tólf slíka.
Aðspurður hvort að alltaf hafi verið gerðar miklar væntingar til hans á Íslandi svarar Sveinn:
„Væntingarnar koma meira frá sjálfum mér en nokkrum öðrum, svo ég hef aðallega fundið fyrir þeim frá mér sjálfum.“
Næsti leikur Sveins og félaga er á heimavelli gegn Djurgården í dag. Sigur gæti fleytt Elfsborg upp í 4. sæti.