Stefán Teitur spilaði 73 mínútur er Silkeborg steinlá fyrir Midtjylland á heimavelli, lokatölur 1-4. Gestir sjá þar með til þess að þeir eiga enn tölfræði möguleika á að vinna danska meistaratitilinn á meðan Silkeborg endar tímabilið í þriðja sæti.
Alfons Sampsted og félagar í norska meistaraliðinu Bodø/Glimt björguðu stigi gegn Trömsö í uppbótartíma, lokatölur 1-1. Alfons spilaði allan leikinn í hægri bakverði.

Ari Leifsson lék allan leikinn í hjarta varnar Strømsgodset sem gerði góða ferð til Kristiansund, lokatölur 0-3. Brynjólfur Darri Willumsson kom inn af bekk heimamanna í hálfleik en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.
Hólmbert Aron Friðjónsson spilaði síðustu fimm mínúturnar í 1-0 sigri Lilleström á Sarpsborg 08.
Patrik Sigurður Gunnarsson spilaði allan leikinn milli stanga Viking er liðið lagði Jerv 3-0 á heimavelli. Samúel Kári Friðjónsson var einnig í byrjunarliði heimamanna en var tekinn af velli á 78. mínútu.
Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson voru i byrjunarliði Vålerenga sem fékk Ham-Kam í heimsókn. Viðar Örn spilaði 62 mínútur sem fremsti maður og Brynjar Ingi 85 mínútur í miðri vörninni en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Viking er sem stendur á toppi deildarinnar með 19 stig eftir að hafa spilað átta leiki. Þar á eftir kemur Lilleström með 17 stig og leik til góða.
Strømsgodset og Vålerenga eru með 10 stig eftir að hafa spilað sjö leiki í 5. og 6. sæti á meðan meistarar Bodø/Glimt hafa byrjað illa og eru í 7. sæti með níu stig eftir að hafa aðeins leikið sex leiki.
Birkir Bjarnason spilaði allan leikinn á miðri miðjunni er Adana Demirspor tapaði 3-2 fyrir Galatasaray í tyrknesku úrvalsdeildinni. Þetta var fjórða tap Demirspor í röð en liðið er í 9. sæti með 52 stig þegar ein umferð er eftir.
