Liverpool gerði sitt í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar en það dugði ekki til þess að klófesta meistaratitilinn þar sem Man City vann frækinn sigur á Aston Villa á sama tíma.
Það blés reyndar ekki byrlega fyrir Liverpool því Pedro Neto kom gestunum óvænt yfir strax á 3.mínútu leiksins.
Sadio Mane jafnaði metin á 24.mínútu og staðan í leikhléi 1-1 en Liverpool þurfti á sigri að halda til að eiga möguleika á titlinum.
Mohamed Salah kom inn af bekknum fyrir síðasta hálftímann og hjálpaði Liverpool að innbyrða að lokum 3-1 sigur þar sem Salah og Andy Robertson skoruðu á síðustu tíu mínútum leiksins.
Nokkrum mínútum áður hafði Man City hins vegar náð ótrúlegri endurkomu gegn Aston Villa og því þarf Liverpool að sætta sig við annað sætið.