Framkonur eru 1-0 yfir í einvíginu eftir 28-27 sigur í Safamýrinni þar sem heimakonur voru sterkari í lokin eftir mikinn spennuleik. Karen Knútsdóttir, fyrirliði Fram, átti magnaðan leik með níu mörk og átta stoðsendingar.
Leikur tvö hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 18.50.
Í síðasta leik skiptu liðin sex sinnum um forystu í leiknum en Framliðið var einu marki yfir í hálfleik 12-11. Valur náði forystunni, 22-21, þegar þrettán mínútur voru eftir en Framkonur skoruðu þá þrjú mörk í röð og náðu frumkvæðinu sem þær héldu út leikinn.
HB Statz notar tölfræðina til að mæta bæði hraða og spennustig leiksins og mælikvarðinn var í því hæsta á báðum stöðum í síðasta leik, hraðinn í 99,48 af 100 og spennustigið í 98,43 af 100.
Þetta var hins vegar ekki fyrsti innbyrðis leikur liðanna sem vinnst með minnsta mun. Tveir af þremur deildarleikjum liðanna unnust einnig með einu marki.
Valskonur unnu fyrsta deildarleik liðanna í Safamýrinni í nóvember, 25-24, þar sem jafnt var í hálfleik, 14-14. Framkonur skoruðu síðasta markið í leiknum.
Valsliðið vann einnig fyrsta deildarleik liðanna á Hlíðarenda á tímabilinu með einu marki, líka 25-24, en sá leikur fór fram í febrúar. Þá var jafnt í hálfleik, 13-13. Thea Imani Sturludóttir skoraði sigurmark Valsliðsins.
Áður en kom að leiknum í úrslitaeinvíginu þá höfðu Valskonur unnu sex marka sigur á Fram í bikarúrslitaleiknum, 25-19, en Framkonur svöruðu með því að vinna síðasta deildarleik liðanna með sjö marka mun, 24-17, og tryggja sér með því deildarmeistaratitilinn.
Í síðasta deildarleiknum varði Hafdís Renötudóttir 24 af 36 skotum Valskvenna eða 67 prósent skota sem á hana komu. Það á ekkert lið möguleika á móti Fram með Hafdísi í slíkum ham.
Í bikarúrslitaleiknum skoraði Lovísa Thompson tíu mörk og var einnig með níu stopp í vörninni. Valsvörnin sýndi mátt sinni í þeim leik en hjá HB Statz fengu þær Lovísa og Hildigunnur Einarsdóttir báðar 10 fyrir varnarleik sinn.
- Innbyrðis leikir Vals og Fram á tímabilinu:
- Undanúrslit í bikar, 30. september: Fram vann með þremur mörkum, 22-19.
- Deild, 6. nóvember: Valur vann með einu marki, 25-24
- Deild, 24. febrúar: Valur vann með einu marki, 25-24
- Bikarúrslit, 12. mars: Valur vann með sex mörkum, 25-19
- Deild, 9. apríl: Fram vann með sjö mörkum, 24-17.
- Úrslitakeppni, 20. maí: Fram vann með einu marki, 28-27
- Samtals:
- Fram 3 sigrar (+3, +7, +1)
- Valur 3 sigrar (+1, +1, +6)