Chelsea keypti Drinkwater frá Leicester City fyrir 35 milljónir punda haustið 2017. Hann var í lykilhlutverki hjá Leicester þegar liðið varð Englandsmeistari 2016 og lék þrjá leiki með enska landsliðinu það sama ár.
Dvöl Drinkwaters hjá Chelsea var algjörlega mislukkuð. Hann lék bara 23 leiki á tæpum fimm árum og var þrisvar sinnum lánaður í burtu.
Drinkwater yfirgefur Chelsea þegar samningur hans við félagið rennur út í lok mánaðarins. Í færslu á Instagram bað hann stuðningsfólk Chelsea afsökunar á dvölinni hjá félaginu.
„Fótbolti er frábær íþrótt en þessi ákvörðun var röng hjá báðum. Ég bið stuðningsfólk Chelsea afsökunar á því hvernig þetta fór. Ég hefði viljað að þið hefðuð sé mig upp á mitt besta,“ sagði Drinkwater.
Þessi 32 ára miðjumaður er uppalinn hjá Manchester United en lék aldrei fyrir aðallið félagsins.