Pablo og félagar hans í Íslands- og bikarmeisturum Víkings taka á móti Lech Poznan í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu annað kvöld.
Fyrir átta árum vann Stjarnan Lech Poznan, 1-0, í heimaleik sínum og gerði svo markalaust jafntefli í leiknum ytra. Stjarnan komst því áfram og mætti Inter í næstu umferð. Pablo var í byrjunarliði Garðbæinga í báðum leikjunum.
„Ég er spenntur,“ sagði Pablo á blaðamannafundi í Víkinni í dag.
„Ég elskaði að spila á móti Lech Poznan. Þetta voru mjög skemmtilegir leikir, mikill slagur og frábær leikvangur. Það er alltaf skemmtilegt að koma þér í stuð fyrir svona leiki.“
Pablo segir að Víkingar fari fullir sjálfstrausts inn í einvígið sem framundan er.
„Við teljum okkur eiga góða möguleika. Þetta eru ellefu á móti ellefu og þetta ætti að vera spennandi,“ sagði Pablo.
Leikur Víkings og Lech Poznan hefst klukkan 18:45 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.