Um helgina staðfesti Man United komu landsliðskonunnar Nikitu Parris en hún lék síðast með Arsenal. Hún skrifar undir samning til ársins 2024.
Hin 28 ára gamla Parris á að baki glæstan feril en ásamt því að leika með Arsenal hefur hún spilað með Everton, Manchester City og Lyon á ferli sínum. Ofan á það má svo bæta við 67 A-landsleikjum.
„Það er ótrúlegt að vera hér. Þetta hefur verið ótrúlegt sumar og þetta fullkomnar það endanlega. Manchester United er sögufrægt félag sem er að gera sig gildandi í WLS-deildinni og ég get ekki beðið eftir að vera hluti af liðinu sem og að ná árangri hér í framtíðinni,“ sagði framherjinn við undirskriftina.
Introducing summer signing number six...
— Manchester United Women (@ManUtdWomen) August 6, 2022
@LilKeets #MUWomen pic.twitter.com/96fv03VKiP
„Ég vil hjálpa liðinu að taka skref fram á við og þroskast. Ég er ekki eini leikmaðurinn sem Man Utd sækir í sumar og sýnir það metnað félagsins. Ég er mjög ánægð og get ekki beðið eftir að hefjast handa,“ bætti Parris við.
Manchester United endaði í 4. sæti WLS-deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt missti af Meistaradeildarsæti. Félagið ætlar sér greinilega að gera betur á komandi leiktíð en alls hefur það sótt sex leikmenn í sumar.