Vert að taka fram að hér er aðeins átt við þann pening sem lið hafa borgað fyrir leikmenn en ekki nettó eyðslu þeirra í sumar.
Man United átti arfaslakt síðasta tímabil og endaði 13 stigum á eftir Tottenham Hotspur sem nældi í fjórða og síðasta Meistaradeildarsætið. Þá endaði Man Utd heilum 35 stigum á eftir nágrönnum sínum og Englandsmeisturum Manchester City. Það hefði því mátt búast við yfirvinnu á faxtækinu á skrifstofu Man Utd en í raun hefur andstæðan átt sér stað.
Eftir að missa Paul Pogba, Nemanja Matić, Juan Mata, Jesse Lingard og Edinson Cavani alla á frjálsri sölu þá hefur Erik Ten Hag, nýráðinn þjálfari félagsins, aðeins náð að sannfæra þrjá leikmenn um að ganga í raðir félagsins.
Christian Eriksen kom á frjálsri sölu, Tyrell Malacia kom frá Feyenoord á rúmar 13 milljónir punda (2,1 milljarð íslenskra króna) og Lisandro Martinez kom á tæpar 50 milljónir punda frá Ajax (tæplega 8,3 milljarðar íslenskra króna).
Á sama tíma eru fimm félög sem hafa eytt 100 milljónum punda (rúmlega 16,6 milljarðar íslenskra króna) eða meira. Þar á eftir kemur Leeds United en félagið hefur eytt rúmlega 95 milljónum punda í sumar.

Chelsea er það lið sem hefur eytt mestu í leikmenn en nágrannaliðin í Lundúnum hafa verið iðnust við kolann í sumar. Ásamt Chelsea eru Arsenal, Tottenham Hotspur og West Ham United í efstu fjórum sætunum.
Chelsea hefur eytt 176,5 milljónum punda í þá Marc Cucurella, Raheem Sterling, Kalidou Koulibaly, Carney Chukwuemeka og Gabriel Slonina.
Arsneal hefur eytt 121,5 milljónum punda í þá Gabriel Jesus, Fábio Vieira, Oleksandr Zinchenko, Matt Turner og Marquinhos.
Tottenham hefur eytt 115 milljónum punda í Richarlison, Yves Bissouma, Djed Spence, Ivan Perisic og Fraser Forster. Þá kom Clément Lenglet á láni frá Barcelona.
West Ham hefur eytt 102,75 milljónum punda í Gianluca Scamacca, Nayef Aguerd, Maxwel Cornet, Flynn Downes og Alphonse Areola.

Manchester City er svo í fimmta sæti eftir að hafa eytt 101,1 milljón punda í Erling Braut Håland, Kalvin Phillips og Stefan Ortega. Þar á eftir kemur Leeds en félagið hefur eytt 95,4 milljónum punda í þá Brendan Aaronson, Luis Sinisterra, Tyler Adams, Rasmus Kristensen, Marc Roca, Darko Gyabi og Joel Robles.
Athygli vekur að ásamt Man Utd þá er Liverpool hvergi sjáanlegt á þessum lista. Liðið úr Bítlaborginni sótti Luis Díaz í janúar síðastliðnum og í sumar hefur félagið fest kaup á Darwin Núñez, Fábio Carvalho og Calvin Ramsey. Það þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur þar þó félagið hafi ekki brotið 100 milljón punda múrinn.

Félagaskiptaglugginn fyrir félög í ensku úrvalsdeildinni lokar þann 1. september og því er enn nægur tími fyrir félög til að spreða peningum í nýja leikmenn.