Talið er að Chelsea hafi greitt um sjötíu milljónir punda fyrir Fofana sem gerir hann að einum dýrasta varnarmanni allra tíma. Hann skrifaði undir sjö ára samning við Chelsea.
Welcome, Wesley! #FofanaIsChelsea
— Chelsea FC (@ChelseaFC) August 31, 2022
Fofana, sem er 21 árs, er þriðji varnarmaðurinn sem Chelsea kaupir í sumar. Áður voru Kalidou Koulibaly og Marc Cucurella komnir til félagsins.
Leicester keypti Fofana frá Saint-Étienne fyrir tveimur árum. Hann varð bikarmeistari með Refunum 2021 en þeir unnu þá Chelsea í úrslitaleiknum, 1-0. Fofana fótbrotnaði illa í vináttuleik síðasta haust og lék þar af leiðandi tólf leiki með Leicester á síðasta tímabili.
Chelsea tapaði 2-1 fyrir Southampton í ensku úrvalsdeildinni í gær. Eftir leikinn kvartaði Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri liðsins, sáran yfir slökum varnarleik Chelsea.
Fofana gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Chelsea þegar liðið tekur á móti West Ham United í Lundúnaslag um helgina.